Körfubolti

Öruggar með besta árangur Ís­lands á EM frá upp­hafi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpurnar sýndu rosalegan karakter í leiknum í gær og það var því full ástæða til að fagna vel sögulegum sigri í leikslok.
Íslensku stelpurnar sýndu rosalegan karakter í leiknum í gær og það var því full ástæða til að fagna vel sögulegum sigri í leikslok. FIBA Basketball

Íslenska tuttugu ára landslið kvenna í körfubolta náði sögulegum árangri í gærkvöldi með því að vinna Holland í sextán liða úrslitum A-deildar Evrópukeppninnar.

Stelpurnar voru þegar búnar að skrifa söguna með því að vera fyrsta íslenska kvennaliðið sem tekur þátt í A-deild.

Með því að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum og þar með sæti meðal átta efstu þjóðanna þá hafa þær náð að jafna besta árangur íslensks landsliðs á Eurobasket frá upphafi, hvort sem það er hjá körlum, konum, unglingum eða fullorðnum.

Íslenska liðið vann ekki leik í riðlinum og útlitið var ekki bjart í þessum leik á móti Hollandi. Ísland var tólf stigum undir, 62-50, fyrir lokaleikhlutann en stelpurnar unnu hann 27-12 og tryggðu sér magnaðan 77-74 sigur.

Ása Lind Wolfram, leikmaður Aþenu, átti algjöran stórleik en hún var með 18 stig, 78 prósent skotnýtingu og 5 fráköst á 20 mínútum sem íslenska liðið vann með fjórtán stigum.

Jana Falsdóttir (í námi í Bandaríkjunum) skoraði 16 stig, Rebekka Rut Steingrímsdóttir (KR) var með 11 stig, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Dzana Crnac, annar leikmaður Aþenu, skoraði 12 stig, og einn helsti leiðtogi liðsins Kolbrún María Ármannsdóttir var með 9 stig og 5 stolna bolta.

Þá má ekki gleyma varnarleik og fráköstum Söru Líf Boama sem var með 11 fráköst, mest allra á vellinum og Ísland vann þær mínútur sem hún spilaði með tólf stigum.

Íslenski hópurinn fagnar sigrinum í gær.FIBA Basketball

Næst á dagskrá er leikur á móti Litháen í átta liða úrslitunum í kvöld.

Íslensku stelpurnar eru þegar öruggar með metárangur.

Besti árangur íslensks liðs er áttunda sætið sem tuttugu ára landslið karla náði í A-deild Evrópumótsins sumarið 2017. Íslenska liðið datt þá á endanum úr á móti Ísrael (vann silfur) í átta liða úrslitum og tapaði síðan báðum leikjum sínum um 5. til 8. sæti.

Ísland átti þá ein af stjörnum mótsins því miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason var valinn í úrvalslið keppninnar. Tryggvi var með hæsta framlag allra leikmanna (28,3), með flest varin skot í leik (3,3) og í þriðja sæti í fráköstum (12,2).

Stigahæstu menn íslenska liðsins voru Tryggvi (16,1), Kristinn Pálsson (8,0), Þórir Þorbjarnarson (7,1) Halldór Garðar Hermannsson (6,9) og Kári Jónsson (6,2).

Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum í körfuna.FIBA Basketball
  • Besti árangur íslenskra körfuboltalandsliða í A-deild Eurobasket:
  • 8. sæti eða ofar - Tuttugu ára landslið kvenna 2025
  • 8. sæti - Tuttugu ára landslið karla 2017
  • 9. sæti - Sextán ára landslið karla 1993
  • 12. sæti - Tuttugu ára landslið karla 2023
  • 13. sæti - Tuttugu ára landslið karla 2024
  • -
  • A-landslið karla
  • Eurobasket 2015: 24. sæti
  • Eurobasket 2017: 24. sæti
  • -
  • Tuttugu ára landslið kvenna
  • EM 2025: Verða í 8. sæti eða ofar
  • -
  • Tuttugu ára landslið karla
  • EM 2017: 8. sæti
  • EM 2023: 12. sæti
  • EM 2024: 13. sæti
  • EM 2025: 14. sæti
  • EM 2018: 15. sæti
  • -
  • Átján ára landslið karla
  • EM 2006: 15. sæti
  • -
  • Sextán ára landslið karla
  • EM 1993: 9. sæti
  • EM 2005: 14. sæti
  • EM 2006: 16. sæti
  • EM 1975: 16. sæti



Fleiri fréttir

Sjá meira


×