Fótbolti

Jorge Costa látinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Costa í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu sumarið 2004. Porto vann leikinn við Mónakó 3-0 og varð Evrópumeistari í fyrsta sinn.
Costa í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu sumarið 2004. Porto vann leikinn við Mónakó 3-0 og varð Evrópumeistari í fyrsta sinn. Mike Egerton/EMPICS via Getty Images

Jorge Costa, fyrrum fyrirliði og yfirmaður knattspyrnumála hjá Porto, er látinn aðeins 53 ára að aldri. Costa lést eftir hjartaáfall.

Portúgalskir fjölmiðlar greina frá tíðindunum. Costa fékk hjartaáfall í dag og lést. Porto tilkynnti um fráfall hans og syrgir fallinn félaga.

„Porto lýsir djúpri sorg og skelfingu vegna andláts goðsagnar í sögu félagsins,“ segir í yfirlýsingu Porto. „Arfleifð Jorge Costa mun lifa í minningum allra stuðningsmanna Porto. Þú munt aldrei gleymast, fyrirliði,“ segir þar enn fremur.

Costa var starfandi sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Porto þegar hann lést. Samkvæmt portúgölskum fjölmiðlum fann hann til óþæginda í morgun og var fluttur á São João-spítala í Porto-borg. Þar fékk hann hjartaáfall á bráðamótttökunni og lést.

Hann hafði sinnt starfinu frá því sumarið 2024 en áður hafði hann starfað sem þjálfari víða um heim. Hann stýrði til að mynda liðum Braga, Olhanense og Academica í Portúgal en þjálfaraferill hans hafði einnig dregið hann til Rúmeníu, Kýpur, Frakklands, Indlands og Túnis auk þess sem hann stýrði landsliði Gabon um tveggja ára skeið.

Costa hafði starfað fyrir Porto í rúmt ár þegar hann lést. Hann hafði verið þjálfari víða um heim frá 2007 til 2024 áður en hann var ráðinn sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Porto síðasta sumar.Gualter Fatia/Getty Images

Costa er af mörgum talinn einn traustasti þjónn í sögu Porto sem leikmaður. Hann spilaði tæplega 400 leiki fyrir liðið frá 1992 til 2005.

Hann vann portúgölsku deildina átta sinnum auk þess sem hann var hluti af liði Porto undir stjórn José Mourinho sem vann Meistaradeild Evrópu sumarið 2004.

Costa lék 50 landsleiki fyrir Portúgal frá 1992 til 2002 og skoraði í þeim tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×