Innlent

„Þetta er hættu­leg helgi“

Magnús Jochum Pálsson og Oddur Ævar Gunnarsson skrifa
Ágúst Mogensen vill ekki sjá nein umferðarslys um helgina.
Ágúst Mogensen vill ekki sjá nein umferðarslys um helgina.

Stærsta ferðahelgi ársins, Verslunarmannahelgin, er að hefjast og umferðin á þjóðvegum landsins þegar farin að þyngjast. Forvarnasérfræðingur hvetur fólk til að vera varkárt og hafa hugann við aksturinn.

Fréttamaðurinn Oddur Ævar Gunnarsson ræddi við Ágúst Mogensen, sérfræðing í forvörnum hjá Verði,í kvöldfréttum Sýnar í kvöld.

Þetta er hættulegasta helgi ársins þegar kemur að umferðinni?

„Já, þetta er hættuleg helgi. Það hafa orðið mörg umferðarslys og það er mikil umferð. Þannig að númer 1, 2 og 3 þegar við leggjum í hann: Það er þolinmæði, ekki fara í óþarfa framúrakstur, njóta en ekki þjóta, spenna beltin, passa okkur mjög vel, það getur orðið rigning um helgina og rásir á vegunum,“ segir Ágúst.

„Við þurfum að vera með hugann hundrað prósent við aksturinn.“

Óþolinmæði kosti mistök

Og passa sig kannski jafnvel ef fólk er að missa sig í gleðinni eða er að drekka að fara ekki of snemma af stað?

„Lögreglan verður með eftirlit um helgina, það er ölvunaraksturseftirlit, þannig við þurfum að sofa vel áður en við leggjum í hann heim. Vera allsgáð hvort sem það er fyrir heimferðina eða meðan við erum að skemmta okkur, ölvunarakstur er algjört bann,“ segir Ágúst.

„Hundrað prósent athygli, stilla hraðanum í hóf, ekki vera í símanum og njóta helgarinnar,“ bætir hann við.

Þetta snýst allt um þolinmæðina? 

„Það gerir það og óþarfa óþolinmæði getur kostað mistök sem eru svo dýrkeypt og það viljum við alls ekki. Við viljum engin umferðarslys um helgina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×