Erlent

Sjö dáið úr hungri síðasta sólar­hringinn

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fæstir vörubílar komust á leiðarenda.
Fæstir vörubílar komust á leiðarenda. EPA

Sjö hafa dáið úr hungri á Gasa síðasta sólarhring samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Hamas. Alls hafa 154 dáið úr hungri frá því að átökin hófust í október árið 2023.

Heilbrigðisráðuneyti Hamas segir að alls hafi 103 verið drepnir í dag, sextíu af þeim hafi verið að leita sér aðstoðar.

Aðeins örfáir dagar eru síðan fulltrúar Sameinuðu þjóðanna sögðu versta hugsanlega atburðarásin ætti sér stað á Gasa en gríðarleg hungursneyð er þar. BBC segir að 109 vörubílar með mat og öðrum nauðsynjavörum hafi verið hleypt yfir landamærin en nær enginn þeirra hafi komist á leiðarenda þar sem öllu hafi verið rænt samstundis.

Sameinuðu þjóðirnar telja að um sex hundruð vörubíla af nauðsynjavörum þarf á hverjum degi á Gasa til að aðstoða alla sem eru þar nú.

Þá herma heimildir BBC að sex manns létust er þau reyndu að fá mat frá hjálparstofnun en ráðist var á þau er þau voru á leiðinni. Er það ekki í fyrsta skipti sem ráðist er á Gasabúa er þau leita sér aðstoðar en Gasa Humanitarian Foundation, sem rekið er af Bandaríkjunum, neita að ráðist hafi verið á fólk nálægt útibúum þeirra.

Ísraelski herinn sagði BBC að hópur grunsamlegra einstaklinga hefði átt í hótunum við hermenn á svæðinu. Hermennirnir sögðu einstaklingunum að fara burt og skutu varnarskotum upp í loft. Þessi atburður hefði átt sér stað hundruð metra frá útibúi Gasa Humanitarian Foundation. 

Í síðustu viku yfirgáfu fulltrúar Ísraels og Bandaríkjanna Katar þar sem vopnahlésviðræður áttu sér stað. Þeir sögðu fulltrúa Hamas ekki haga sér „í góðri trú.“ Steve Witkoff, sérstakur erindreki Bandaríkjanna, fer hins vegar á morgun til Ísrael til að ræða stöðuna sem er uppi núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×