Fótbolti

Karl­remban Chicharito í klandri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Chicharito var sektaður af mexíkóska knattspyrnusambandinu fyrir karlrembuleg ummæli.
Chicharito var sektaður af mexíkóska knattspyrnusambandinu fyrir karlrembuleg ummæli. Jaime Lopez/Jam Media/Getty Images

Javier Hernandez, einnig þekktur sem Chicharito og var áður leikmaður Manchester United og landsliðsfyrirliði Mexíkó, hefur verið sektaður fyrir karlrembuleg ummæli á samfélagsmiðlinum TikTok.

Chicharito birti nokkur myndbönd á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem hann sagði konur meðal annars vera að „bregðast samfélaginu“ og „eyðileggja karlmennskuna.“

„Ekki vera hræddar við að vera konur, leyfið ykkur að vera leiddar af karlmanni“ segir Chicharito einnig við sína 6,7 milljón fylgjendur.

@chicha14_

Ummælin hafa vakið hörð viðbrögð í heimalandi hans, Mexíkó.

„Chicharito er frábær leikmaður en þegar kemur að skoðunum hans um konur… Hann á margt eftir ólært“ sagði Claudia Sheinbaum, fyrsti kvenkyns forseti Mexíkó.

Chivas, félagið sem hann spilar fyrir í mexíkósku úrvalsdeildinni, hefur sagt ummælin ganga gegn gildum félagsins.

Mexíkóska knattspyrnusambandið sektaði Chicharito svo í gærkvöldi fyrir að brjóta reglur sambandsins og stuðla að stafrænu ofbeldi.

Chicharito er markahæsti landsliðsmaður Mexíkó frá upphafi. Hann spilaði með Manchester United í ensku úrvalsdeildinni frá 2010-14 og sneri aftur í deildina sem leikmaður West Ham árið 2017 eftir stutt stopp hjá Real Madrid og Bayer Leverkusen.

Árið 2020 fór hann til Spánar og spilaði fyrir Sevilla, þaðan til Bandaríkjanna með LA Galaxy áður en leiðin lá heim til Chivas árið 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×