Innlent

Sex spænskar orrustu­þotur á leið til landsins

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Sex svona F-18 þotur koma til landsins á morgun á vegum spænska hersins. Myndin er úr safni af slíkri þotu í eigu Bandaríkjahers.
Sex svona F-18 þotur koma til landsins á morgun á vegum spænska hersins. Myndin er úr safni af slíkri þotu í eigu Bandaríkjahers. Getty

Sex F-18 orrustuþotur spænska hersins koma til landsins á morgun að sinna gæslu á norðurslóðum á vegum Atlantshafsbandalagsins. Með vélunum koma 122 hermenn, en 44 eru þegar komnir til Keflavíkur að undirbúa komu þeirra.

Spænska blaðið El Pais greinir frá þessu sem og enska útgáfan af El Mundo.

Spænsku þoturnar koma til með að taka þátt í verkefni á vegum Atlantshafsbandalagsins sem ber íslenska nafnið Stinga. Verkefnið snýr að því að auka gæslu og eftirlit í lofti á Norðurslóðum og stöðva för óþekktra véla inn á svæðið.

Atlantshafsbandalagið hefur á undanförnum árum beint sjónum sínum í auknum mæli að Norðurslóðum vegna aukinna umsvifa Rússa á svæðinu.

El Mundo segir að meðal þeirra 122 sem koma til landsins með flugvélunum séu flugmenn, flugvirkjar, hergagnasérfræðingar, öryggisverðir, og aðrir sem koma til með að sinna ýmsum verkefnum.

Mannskapurinn muni hafast við í herstöðinni í Keflavík.

Rafael Ichasco Franco herforingi leiðir verkefnið, en hann segir við blaðið Mundo að herinn hafi þurft talsverða þjálfun þar sem verkefnið fari fram í framandi umhverfi á Íslandi.

Hann segir það mikinn heiður að taka þátt í slíkum verkefnum á vegum Nato, og segir það sérstaklega mikinn heiður að leiða fyrstu spænsku sveitina á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×