Innlent

Dóm­stóll ESB stað­festir niður­stöðu varðandi vöru­merkið Iceland

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Utanríkisráðherra segir um að ræða mikið hagsmunamál fyrir land og þjóð.
Utanríkisráðherra segir um að ræða mikið hagsmunamál fyrir land og þjóð. Vísir

Almennur dómstóll Evrópusambandsins hefur staðfest niðurstöðu Hugverkastofu ESB varðandi vörumerkið Iceland. Hefur hann hafnað kröfum Iceland Foods Ltd. um ógildingu á niðurstöðu EUIPO.

Frá þessu er greint á vef utanríkisráðuneytisins.

Niðurstaðan hefur það í för með sér að Iceland Foods Ltd. getur ekki lengur hindrað íslensk fyrirtæki frá því að auðkenna sig með upprunalandinu við markaðssetningu í Evrópusambandinu.

„Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við Íslandsstofu, Samtök atvinnulífsins og Icelandic Trademark Holding ehf., hafa farið fyrir ógildingarkröfum Íslands á vettvangi Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) frá árinu 2016. Krafa íslenska ríkisins um ógildingu orðmerkisins og orð- og myndmerkisins ICELAND byggðist á því að vörumerkið uppfyllti ekki lagaskilyrði til að fást skráð sem vörumerki í Evrópusambandinu,“ segir á vef ráðuneytisins.

„Við fögnum auðvitað afdráttarlausri niðurstöðu okkur í vil í þessu mikilvæga máli fyrir hagsmuni lands og þjóðar,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. „Það skiptir höfuðmáli fyrir fyrirtækin okkar að geta vísað til upprunans, til hreinleikans og til sérstöðu okkar á alþjóðavettvangi. Það felast verðmæti í heiti landsins og við stöndum áfram vörð um þessa hagsmuni fyrir Ísland.“

Iceland Foods Ltd. hefur tvo mánuði til að áfrýja niðurstöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×