Erlent

Leynd af­létt af leyni­legri á­ætlun um mót­töku Afgana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þegar Bandaríkjamenn yfirgáfu Afganistan freistuðust margir íbúar þess að komast í burtu af ótta við hefndaraðgerðir, til að mynda þeir sem höfðu aðstoðað hersetuliðið.
Þegar Bandaríkjamenn yfirgáfu Afganistan freistuðust margir íbúar þess að komast í burtu af ótta við hefndaraðgerðir, til að mynda þeir sem höfðu aðstoðað hersetuliðið. Getty/Los Angeles Times/Marcus Yam

Ríkisstjórn Rishi Sunak, sem var forsætisráðherra Íhaldsmanna frá 2022 til 2024, kom á fót neyðarúrræði fyrir Afgani sem þurftu að komast úr landi í kjölfar valdatöku Talíbana, eftir að lista yfir þá sem höfðu sótt um að komast til Bretlands var lekið fyrir mistök.

Frá þessu greinir BBC en yfirréttur aflétti í dag banni sem var lagt á fréttaflutning af málinu.

Þegar Bandaríkjaher fór frá Afganistan sumarið 2021 settu stjórnvöld á Bretlandseyjum á laggirnar áætlun sem bar heitið Afghan Relocations and Assistance Policy (Arap) sem miðaði að því að gera Afgönum sem voru í hættu vegna mögulegra hefndaraðgerða Talíbana kleift að komast til Bretlandseyja.

Listi yfir þá 19 þúsund sem sóttu um fór óvart í birtingu eftir mistök starfsmann varnarmálaráðuneytisins í febrúar 2022 en það var ekki fyrr en í ágúst 2023 sem ráðuneytið komast að því að listanum hefði verið lekið, eftir að ljóstrað var upp um innihald hans á Facebook.

Stjórnvöld gripu til þess ráðs að setja á fót nýja áætlun, Afghan Response Route, í apríl 2024.

Fram til dagsins í dag hafa 4.500 Afganir komið til Bretlands í gegnum ARR og 600 til viðbótar eru á leiðinni, ásamt fjölskyldum. Samkvæmt varnarmálaráðuneytinu hefur kostnaður við ARR numið 400 milljónum punda og áætlaður heildarkostnaður verður í kringum 800 milljónir punda.

Ráðuneytið hefur ekki viljað gefa upp hvort einhverjir hefðu verið handteknir eða drepnir í Afganistan vegna lekans.

Dómarinn sem tók fjölmiðlabannið fyrir sagði það vega freklega að tjáningarfrelsinu og hafa komið í veg fyrir eðlilegt og nauðsynlegt eftirlit í lýðræðisríki.

BBC fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×