Erlent

Norð­maður fékk flutninga­skip næstum inn í húsið á meðan hann svaf

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar við Þrándheimsfjörð virða fyrir sér flutnigaskipið sem strandaði við hliðina á húsi í morgun.
Íbúar við Þrándheimsfjörð virða fyrir sér flutnigaskipið sem strandaði við hliðina á húsi í morgun. Vísir/EPA

Aðeins örfáum metrum munaði að flutningaskip sem strandaði í Þrándheimsfirði í Noregi snemma í morgun rækist á íbúðarhús. Húsráðandi vaknaði ekki við að skipið sigldi í strand og segir uppákomuna meira fáránlega en ógnvekjandi.

Johan Helberg svaf svefni hinna réttlátu í timburhúsi sínu í Byneset við Þrándheimsfjörð þegar 135 metra langt flutningaskip sigldi upp í land, aðeins örfáum metrum frá horni hússins. Helbeg varð ekki var við neitt en hrökk hins vegar upp þegar nágranni hans, sem hafði orðið vitni að strandinu, hringdi dyrabjöllunni í miklu uppnámi.

„Þetta var frekar fjarstæðukennt. Þegar ég leit út um gluggann var stefnið á risastóru skipi þarna,“ segir Helberg við norska ríkisútvarpið.

Engar skemmdir urðu á húsinu aðrar en á leiðslu fyrir hitadælu þess.

„Ef það hefði lent fimm metrum lengra til hægri hefði það runnið upp kletta og þá hefði húsið mitt líklega litið nokkuð öðruvísi út,“ segir Helberg við norska ríkisútvarpið.

Flutningaskipið skemmdist ekki við strandið. Ekki tókst að losa það í fyrstu tilraun í morgun.Vísir/EPA

Stímdi beint upp í land

Nágranninn segist hafa vaknað við skip úti á firðinum um klukkan fimm að staðartíma í nótt. Hann sé vanur skipaumferð um fjörðinn en honum hafi þótt vélarhljóðið sérstaklega hátt.

„Þannig að ég leit út um gluggann og sá bát stefna beint upp á strönd,“ segir Jostein Jørgensen.

Skipið hafi verið á dágóðri siglingu og ekki sýnt nein merki um að það reyndi að breyta um stefnu þrátt fyrir að hann reyndi að öskra og blístra á það.

Lögreglan segir að enginn grunur sé um að þeir sem stýrðu skipinu hafi verið ölvaðir. Sextán manna áhöfn var um borð. Þá virðist engar skemmdir hafa orðið á því.

Reynt var að færa skipið í morgun án árangurs. Háflóð verður næst á níunda tímanum í kvöld.

„Þetta var í raun og veru meira fáránlegt en ógnvekjandi,“ segir Helberg um uppákomuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×