Enski boltinn

Frimpong í læknis­skoðun hjá Liverpool og Kerkez í launaviðræðum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hægri og vinstri bakvörður er á óskalista Liverpool fyrir næsta tímabil.
Hægri og vinstri bakvörður er á óskalista Liverpool fyrir næsta tímabil. getty images

Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool virðist ætla að ganga frá kaupum á hægri og vinstri bakverði fyrir næsta tímabil. Hollendingurinn Jeremie Frimpong, hægri vængbakvörður Bayer Leverkusen í Þýskalandi, er sagður hafa staðist læknisskoðun. Serbinn Milos Kerkez, vinstri bakvörður Bournemouth, er sagður í viðræðum við félagið. 

Liverpool er í leit að bakvörðum vegna brotthvarfs Trent-Alexander Arnold frá félaginu. Hann er á leið til Real Madrid.

Þá er talið að Andy Robertson yfirgefi félagið í sumar, fari mögulega til Celtic í heimalandinu Skotlandi, eða taki að sér hlutverk varamanns á næsta tímabili.

Jeremie Frimpong og Milos Kerkez eru taldir líklegastir til að leysa þá af. Talið er að varabakverðirnir Conor Bradley og Kostas Tsimikas verði áfram hjá Liverpool.

Frimpong var hluti af liði Leverkusen sem náði mögnuðum árangri á síðasta tímabili og vann tvöfalt í Þýskalandi. Mika Volkmann/Getty Images

Sky Sports greindi frá því fyrr í dag að Frimpong hafi staðist læknisskoðun hjá Liverpool. Hann verði keyptur á klásúluverðinu 35 milljónir evra. Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano segir að kaupin verði kláruð og kynnt á næsta sólarhringnum.

Milos Kerkez hefur verið einn besti bakvörður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu. Robin Jones via Getty Images

Kaupin á Milos Kerkez eru ekki eins langt komin en félagaskiptasérfræðingurinn sagði frá því fyrr í dag að viðræður milli félaganna, Bournemouth og Liverpool, hafi gengið vel og samkomulag um kaupverð sé langt komið. Kerkez sé sjálfur spenntur fyrir því að skipta til Englandsmeistaranna.

Manchester City er þó einnig talið hafa áhuga á Kerkez, sem hefur verið einn besti bakvörður deildarinnar í vetur og er væntanlegur í lið ársins að tímabilinu loknu.

Kerkez er 21 árs gamall og metinn á um 45 milljónir punda. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×