Sport

Fyrsti Ítalinn í fjöru­tíu ár til að vinna opna ítalska

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jasmine Paolini tók við titlinum í gær og gæti bætt öðrum við safnið í dag.
Jasmine Paolini tók við titlinum í gær og gæti bætt öðrum við safnið í dag. Dan Istitene/Getty Images

Jasmine Paolini varð í gærkvöldi fyrsti Ítalinn í fjörutíu ár, og aðeins sá fjórði í sögunni, til að vinna opna ítalska meistaramótið í tennis. Paolini sigraði Coco Gauff afar örugglega í úrslitaleiknum.

Paolini naut góðs stuðnings á heimavelli, leirvellinum við Marmaraleikvanginn í Róm, og tók aðeins einn og hálfan klukkutíma að klára úrslitaleikinn. 6-4 sigur í fyrsta setti og 6-2 í seinna setti.

Paolini er í fimmta en mun færast upp í fjórða sæti heimslistans, hún vann gull í tvíliðaleik á Ólympíuleikunum í París í fyrra og komst í úrslit í einliðaleik á opna franska og Wimbledon.

Paolini er fyrsti Ítalinn til að vinna opna ítalska meistaramótið síðan Raffaelle Reggi afrekaði það árið 1985, og aðeins sá fjórði frá upphafi mótsins árið 1930. 

Paolini gæti síðan bætt öðrum titli í safnið þegar úrslitaleikurinn í tvíliðaleik kvenna fer fram klukkan tíu. Þar spilar Paolini með samlöndu sinni Söru Errani gegn Belgunum Elise Mertens og Veroniku Kudermetova.

Samlandi hennar, Jannik Sinner, gæti síðan orðið fimmti Ítalinn til að fagna sigri í einliðaleik en hann leikur til úrslita gegn Spánverjanum Carlos Alcaraz klukkan fimm síðdegis.


Tengdar fréttir

Swiatek vann Opna franska meistaramótið

Pólska tenniskonan Iga Swiatek vann Opna franska meistaramótið nú fyrir skömmu eftir að hún bara sigurorð af hinni ungu Coco Gauff frá Bandaríkjunum.

Sú tékkneska vann Wimbledon mótið

Tékkneska tenniskonan Barbora Krejcikova vann Wimbledon risamótið í tennis í dag eftir sigur á Jasmine Paolini í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×