Handbolti

„Orðið sem ég nota er forréttindapési“

Sindri Sverrisson skrifar
Hildigunnur Einarsdóttir gæti skráð sig í sögubækurnar í dag ásamt liðsfélögum sínum í Val.
Hildigunnur Einarsdóttir gæti skráð sig í sögubækurnar í dag ásamt liðsfélögum sínum í Val. vísir/Ívar

„Það eru smá fiðrildi byrjuð að poppa upp,“ segir Hildigunnur Einarsdóttir sem er staðráðin í að ljúka sínum handboltaferli sem Evrópubikarmeistari, með því að vinna spænska liðið Porrino í úrslitaleik á Hlíðarenda í dag klukkan 15.

Liðin gerðu 29-29 jafntefli á Spáni fyrir viku síðan og spennan er því mikil fyrir seinni leikinn í dag. Í fyrsta sinn fer Evrópubikar á loft á Íslandi og Hildigunnur segir að með góðum stuðningi, og lærdómnum sem dreginn var af fyrri leiknum, þá verði það Valskonur sem taki við bikarnum. Viðtalið við hana má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Hildigunnur fyrir úrslitaleikinn

„Til þessa höfum við verið mjög góðar á milli leikja [í keppninni]. Lagað hlutina sem þarf að laga. Eigum við ekki bara að treysta á að við gerum það sama núna, og virkilega lögum það sem við viljum laga? Svo erum við með ákveðinn heimaleikjarétt, stemningin verður okkar megin, og þá held ég að við getum lagað fullt,“ sagði Hildigunnur í viðtali við Val Pál Eiríksson í gær.

En hvernig er eiginlega að vera að fara að spila Evrópuúrslitaleik, og það á heimavelli?

„Þetta er hálfólýsanlegt. Maður veit ekki hvaða orð maður á að nota. Orðið sem ég nota er forréttindapési. Þetta er alveg sturlað. Ég veit að það er mikill áhugi á þessu og fólkið sem kemur verður okkar extra leikmaður. Ég veit að ef stemningin verður frábær þá verður þetta ógleymanlegur dagur bæði fyrir okkur og fólkið sem kemur að styðja okkur,“ sagði Hildigunnur og bætti við:

„Við ætlum að lyfta þessum bikar, það er bara þannig. Ég er búin að sjá þetta fyrir mér í þrjár vikur, að við séum að lyfta þessum bikar. Ég hef fulla trú á því. Við getum lagað það sem við þurfum að laga milli leikja, verðum hér á heimavelli með fullt af fólki, og þá hef ég fulla trú á að þetta fari vel.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×