Innlent

Mál Margeirs til Lands­réttar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Höllu Bergþóru var ekki heimilt að færa Margeir til í starfi líkt og hún gerði.
Höllu Bergþóru var ekki heimilt að færa Margeir til í starfi líkt og hún gerði. Vísir/Vilhelm

Ríkislögmaður hyggst áfrýja máli Margeirs Sveinssonar, yfirlögregluþjóns, gegn Íslenska ríkinu til Landsréttar. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að því á dögunum að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefði ekki verið heimilt að breyta verksviði Margeirs.

Það var gert árið 2023 í kjölfar ásakanna um áreitni í garð undirmanns hans. Hann var þá færður úr stöðu yfirmanns yfir í að því er virðist stöðu einhverskonar sérfræðings, án þess þó að launakjör hans breyttust.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að lögreglustjóranum hafi ekki verið heimilt að breyta verksviði hans með þessum hætti. Að mati dómsins hefði verið réttara að færa hann í aðra sambærilega stöðu, þar sem hann yrði áfram yfirmaður, en ekki yfir starfsmanninum sem sakaði hann um áreitni.

Sjá nánar: Vó að æru Margeirs með því að færa hann til í starfi

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, vildi ekki tjá sig um málið að sinni, en benti á að ríkislögmaður tæki ákvörðun um áfrýjun. Embætti ríkislögmanns segist búið að taka ákvörðun um að áfrýja málinu til Landsréttar.

Ekki náðist í Margeir né lögmann hans við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×