Enski boltinn

„Liðið ætti að vera betra en það er en við erum að reyna“

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Ruben Amorim er kominn með Manchester United í úrslit Evrópudeildarinnar
Ruben Amorim er kominn með Manchester United í úrslit Evrópudeildarinnar Getty/Michael Steele

Ruben Amorim þjálfari Manchester United var ánægður með að komast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar og þá sérstaklega fyrir stuðningsmenn liðsins.

„Það er það minnsta sem við getum gert fyrir stuðningsmennina okkar, fyrir þann stuðning sem þeir hafa sýnt okkur á þessu erfiða tímabili. Ég er þegar orðinn stressaður vegna úrslitaleiksins. Ef okkur tekst ekki ætlunarverkið þá þýðir þetta ekkert, en við erum ánægðir með að vera komnir þangað þannig við sjáum til,“ sagði Amorim

„Ég veit að ég ætti að vera betri þjálfari og liðið ætti að vera betra en það er, en við erum að reyna. Við höfum staðið okkur vel í Evrópu en þetta er búið að vera erfitt í deildinni,“ sagði Amorim

Mason Mount skoraði tvö mörk í leiknum og átti góðan leik eftir að hafa komið inn af bekknum.

„Ég er svo ánægður fyrir hans hönd. Hann er frábær leikmaður, vinnur mjög hart af sér og hefur gæði. Ég er mjög hrifinn af Kobbie Mainoo, hann spilaði bara í tíu mínútur en allt sem hann gerði var gott. Stundum ertu á bekknum og getur breytt leiknum þaðan,“ sagði Amorim

„Þegar maður sér svona leikmann eins og Mason Mount, sem vinnur hart af sér á hverjum degi. Borðar vel, fer í ísböð, þegar maður er með slíkan leikmann, vill maður bara hjálpa honum. Hann er fullkominn í þessa stöðu þar sem hann getur verið miðjumaður en getur líka hlaupið eins og kantmaður. Þannig ég er mjög ánægður fyrir hans hönd.“

Manchester United hefur glímt við mikið af meiðslum á þessu tímabili en Mount er einn af þeim sem hefur verið mikið frá.

„Þegar þú ert með heilan hóp, er hægt að hugsa meira um leikinn. Stundum erum við bara að lifa af í hinum og þessum stöðum, en með fleiri valmöguleika er hægt að breyta leiknum. Það eru hlutir sem hjálpa þér að vinna leiki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×