Atvinnulíf

Að segja upp án þess að brenna brýr

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Sífellt fleiri velja að skipta um starf og vinnustað reglulega en á litla Íslandi skiptir það þá líka máli að brenna engar brýr að baki sér. Því hver veit nema tækifæri í framtíðinni leiði okkur aftur á sama staðinn eða að vinna á vinnustað þar sem núverandi yfirmaðurinn okkar verður líka að vinna?
Sífellt fleiri velja að skipta um starf og vinnustað reglulega en á litla Íslandi skiptir það þá líka máli að brenna engar brýr að baki sér. Því hver veit nema tækifæri í framtíðinni leiði okkur aftur á sama staðinn eða að vinna á vinnustað þar sem núverandi yfirmaðurinn okkar verður líka að vinna? Vísir/Getty

Það er af sem áður var að fólk ynni á sama vinnustað áratugum saman. Jafnvel alla sína starfsævi. Í dag velja flestir að skipta reglulega um starf og líta á það sem hluta af sinni starfsþróun.

Það hversu oft eða mikið fólk gerir það getur verið afar mismunandi. En í dag þykir það að minnsta kosti ekkert tiltökumál að fólk leiti á ný mið, þótt fyrri vinnustaður sé fínn og starfið þar hafi verið gott.

Á litla Íslandi hlýtur það þó að vera mikilvægt að brenna engar brýr að baki sér þótt við séum að skipta um starf. Því hver veit nema yfirmaðurinn þinn og meðmælandi, verði í framtíðinni búinn að skipta um starf og þið mætist á ný: Annars staðar. Eða að þú vilt snúa til baka á þennan vinnustað síðar?

Hér eru nokkur einföld atriði sem gott er að hafa í huga.

Segðu upp auglitis til auglitis

Þótt uppsögninni þinni fylgi uppsagnarbréf eða tölvupóstur um uppsögn, er mælt með því að þú takir samtalið sjálft auglitis til auglitis. Það gerir uppsögnina persónulegri. Sumum finnst hálf skringileg staða að vera í að biðja um fund, en geta ekki sagt út af hverju. En í flestum tilfellum er hægt að tala sig í kringum það; til dæmis að biðja um stuttan fund vegna þess að það sé eitt mál sem þig vanti að ræða við viðkomandi.

Þakklæti

Við erum oft að segja upp hjá sama aðila og réði okkur á sínum tíma. Eða í það minnsta hefur verið yfirmaðurinn okkar um hríð. Að vera í góðu starfi er ekkert sjálfgefið, sama hversu góð við erum. Þess vegna er mælt með því að við látum okkar eigið þakklæti í garð vinnustaðarins í ljós þegar við tökum samtalið.

Uppsagnartímabilið

Hjá flestum er uppsagnarfresturinn þrír mánuðir og sumir falla í þá gryfju að hætta eiginlega í huganum miklu fyrr. Sem er þveröfugt við það sem mælt er með því ef við ætlum ekki að brenna neinar brýr að baki okkar, er þetta einmitt tímabil þar sem við eigum að leggja okkur vel fram eins og áður og láta ljós okkar skína þegar það á við.

Ekkert baknag seinna

Enn eitt atriðið sem flestir hafa reyndar heyrt um er að detta ekki í baknag eða neikvæðni um gamla vinnustaðinn okkar eingöngu vegna þess að við erum hætt þar. Það segir oftast meira um fólkið sjálft sem baknagar en eitthvað annað að falla í þá gryfju. 

Til dæmis gæti nýr vinnuveitandi fengið á tilfinninguna að þú munir gera það sama við nýja vinnustaðinn ef þú hættir þar eftir nokkur ár.


Tengdar fréttir

Gervigreindin: Stjórnendur framtíðarinnar verði þjálfarar

Það hefur löngum verið horft til þess að atvinnulífið geti lært margt af íþróttum. Þar sem þjálfarar blása fólki byr í brjóst, efla liðsheildina og hvetja til dáða svo það er nánast leit að öðru eins.

Andlega uppsögnin: „Þetta er ekki sonur minn sko…“

„Það hljómar svo sem ágætlega að 34 til 36% starfsfólks á vinnumarkaði séu virkir starfsmenn sem svo sannarlega skila sínu, “segir Jón Jósafat Björnsson um niðurstöður sem kynntar voru á vinnustofu sem Dale Carnegie hélt í samvinnu við Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi, fyrir skömmu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×