Fótbolti

Ás­geir Sigur­vins­son sjö­tugur í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásgeir Sigurvinsson og Diego Maradona í úrslitum Evrópukeppni félagsliða 1989.
Ásgeir Sigurvinsson og Diego Maradona í úrslitum Evrópukeppni félagsliða 1989.

Einn fremsti fótboltamaður sem Ísland hefur alið, Ásgeir Sigurvinsson, fagnar stórafmæli í dag. Hann er sjötugur.

Árið 2008 var Ásgeir kosinn besti fótboltamaður Íslands fyrr og síðar. Hann var valinn Íþróttamaður ársins 1974 og 1984.

Ásgeir hóf ferilinn með ÍBV en gekk í raðir Standard Liege í Belgíu 1973. Þar lék hann í átta ár og varð bikarmeistari með liðinu 1981.

Eftir það keypti þýska stórliðið Bayern München Ásgeir. Hann lék í eitt tímabil með Bayern og varð bikarmeistari með liðinu áður en hann fór til Stuttgart 1982. Þar lék hann út ferilinn, til 1990.

Ásgeir varð Þýskalandsmeistari með Stuttgart 1984 og var valinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar. Stuttgart komst einnig í úrslit Evrópukeppni félagsliða 1989 þar sem liðið tapaði fyrir Diego Maradona og félögum í Napoli.

Ásgeir lék 45 leiki fyrir íslenska landsliðið á árunum 1972-89 og skoraði fimm mörk.

Eftir að ferlinum lauk starfaði Ásgeir hjá Stuttgart og stýrði svo Fram tímabilið 1993. Hann þjálfaði síðan íslenska landsliðið ásamt Loga Ólafssyni á árunum 2003-05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×