Fótbolti

Enrique léttur eftir leik: „Við erum bændadeild“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Enrique fagnar eftir sigur Paris Saint-Germain á Arsenal.
Luis Enrique fagnar eftir sigur Paris Saint-Germain á Arsenal. getty/Lars Baron

Skiljanlega var létt yfir Luis Enrique, knattspyrnustjóra Paris Saint-Germain, eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í gær. Hann nýtti tækifærið og skaut létt á þá sem hafa efast um styrk frönsku úrvalsdeildarinnar.

PSG vann Arsenal á Parc des Princes í gær, 2-1, og einvígi liðanna, 3-1 samanlagt. Í úrslitaleiknum á Allianz Arena í München 31. maí mætir PSG Inter.

Arsenal er fjórða enska liðið sem PSG vinnur í Meistaradeildinni í vetur. Í riðlakeppninni vann PSG Manchester City, sló svo Liverpool út í sextán liða úrslitunum, Aston Villa í átta liða úrslitunum og loks Arsenal í undanúrslitunum.

„Deild bændanna, er það ekki? Við erum bændadeild,“ sagði Enrique eftir leikinn í gær en vinsælt hefur verið að uppnefna frönsku úrvalsdeildina bændadeild og gera þannig lítið úr styrk hennar.

„Þetta er indælt. Við njótum úrslitanna og hróssins sem við fáum frá öllum sem tala um liðið okkar; hugarfarið og hvernig við spilum.“

PSG á möguleika að vinna þrefalt á tímabilinu. Liðið er löngu búið að tryggja sér franska meistaratitilinn og er komið í úrslit frönsku bikarkeppninnar og Meistaradeildarinnar.

Enrique þekkir vel að vinna þrennuna en hann gerði það sem stjóri Barcelona fyrir áratug.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×