Fótbolti

„Ekkert lið í þessari keppni hefur verið betra en við“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta huggar hér Thomas Partey eftir tapið í París í kvöld.
Mikel Arteta huggar hér Thomas Partey eftir tapið í París í kvöld. Getty/Marc Atkins

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var að sjálfsögðu mjög svekktur eftir að Arsenal datt út úr Meistaradeildinni í kvöld. Arsenal mun því ekki vinna titil á þessu tímabili.

„Ég vil byrja á því að óska PSG til hamingju með að komast í úrslitaleikinn. Ég mun samt ekki gera þetta almennilega upp fyrr en ég hef náð mér meira niður,“ sagði Arteta við TNT Sports.

„Þegar við horfum til baka á þessa tvo leiki þá var besti leikmaðurinn í þeirra liði markvörðurinn þeirra. Hann var munurinn á liðunum í þessu einvígi,“ sagði Arteta og var þá að tala um hinn frábæra ítalska markvörð Gianluigi Donnarumma.

„Við vorum mjög nálægt þessu og miklu nærri því en úrslitin segja. Því miður erum við úr leik en ég er mjög stoltur af mínum leikmönnum,“ sagði Arteta.

„Við áttum að vera 3-0 yfir eftir tuttugu mínútur. Þú þarft að gera eitthvað aukalega til að vinna þessa keppni og okkur tókst það ekki. Við vorum samt nálægt þessu en yfir langan tíma í báðum leikjum þá vorum við miklu betri en þeir,“ sagði Arteta.

„Okkur tókst ekki að komast alla leið og það er sárt. Ekkert lið í þessari keppni hefur verið betra en við en við erum úr leik. Þessi keppni snýst um vítateigana báðum megin og þar ráða framherjar og markmenn ríkjum. Þeirra menn voru öflugri þar,“ sagði Arteta.

„Mínir menn eiga mikið hrós skilið fyrir hvernig þeir hafa tekið á öllu þessu mótlæti og öllum þessum meiðslum. Það að koma, þrátt fyrir það, inn í þennan leik og gera svona vel gefur mér ástæðu til að vera bjartsýnn fyrir framtíðina. Í kvöld er ég samt mjög fúll,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×