Upp­gjörið: Haukar - Njarð­vík 93-95| Njarð­víkingar eru enn á lífi

Árni Jóhannsson skrifar
Emilie Sofie Hesseldal tók 20 fráköst i kvöld og stal mikilvægum bolta undir lokin.
Emilie Sofie Hesseldal tók 20 fráköst i kvöld og stal mikilvægum bolta undir lokin. Vísir/Jón Gautur

Njarðvíkurkonur eyðilögðu Íslandsmestarapartý Haukanna á Ásvöllum í kvöld og tryggðu sér fjórða leikinn í úrslitaeinvígi Bónus deildar kvenna í körfubolta. Njarðvík vann leikinn 95-93 eftir æsispennandi lokasekúndur.

Njarðvíkingar unnu uppkastið og að endingu leikinnVísir / Jón Gautur Hannesson

Haukakonur hefðu tryggt sér titilinn með sigri en Hafnarfjarðarliðið var búið að vinna átta leiki í röð í úrslitakeppninni. Staðan er 2-1 fyrir Hauka og næsti leikur í Njarðvík á laugardaginn kemur.

Leikurinn var frábær skemmtun frá upphafi til enda og rafmagnað andrúmsloft. Skiljanlega. Njarðvíkingar byrjuðu betur en Haukar voru fljótar að jafna sig og úr varð frábær fyrsti leikhluti. Bæði lið hittu frábærlega í fyrstu en svo hættu Haukakonur að hitta úr þriggja stiga skotunum sínum, misstu Njarðvíkingana 10 stigum fram úr sér en náðu að klóra sig til baka og jafna metin, 27-27 áður en fyrsti leikhlutinn var úti. 

Njarðvíkingar, líklega fúlar með hafa misst niður forskotið mættu út í annan leikhluta á öðrum hundraðinu. Stoppuðu Hauka í sínum aðgerðum og gengu á lagið þegar öll skot Hauka klikkuðu á fyrstu fimm mínútum annars leikhluta. Úr varð 17-0 sprettur gestanna og áður en við var litið var staðan 27-44 fyrir þær grænklæddu og síðar 29-49. Haukar rönkuðu loksins við sér og fóru að skora stig og í lok leikhlutans kom atriði sem skipti máli. Diamond Battles fékk þriggja stiga skot þegar lítið var eftir, hitti því og fékk víti að auki og í staðinn fyrir 17 stig var munurinn 13 stig í hálfleik eða 40-53.

Þóra Kristín tapaði boltanum á ögurstundu en hafði spilað vel í endurkomutilrauninni.Vísir / Jón Gautur Hannesson

Þá voru það Haukar sem mættu bilaðar út í seinni hálfleikinn. Þær voru leiddar af Diamond Battles sem var að stela boltanum og skora körfur og allir fengu sömu tilfinningu og í síðasta leik. Haukar voru á leiðinni til baka og voru líklega að fara að vinna leikinn. Þá gerðist stórt atriði. Diamond Battles hafði fengið tæknivillu í fyrri hálfleik fyrir kjaftbrúk og fékk svo dæmda á sig óíþróttamannslega villu þegar um þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Henni var vikið af velli og þar með einum af leiðtogum liðsins. Njarðvíkingar lifðu af áhlaupið en þó bara rétt svo því Haukar náðu að halda uppi ákafanum í sínum leik en Njarðvík svaraði alltaf fyrir sig. Haukar náðu að minnka muninn niður í fjögur stig þegar þriðja leikhluta var lokið og staðan 71-75 fyrir Njarðvík.

Haukarnir héldu áfram að þjarma að gestunum og komust yfir þegar sjö mínútur voru eftir, 78-77. Eftir það skiptust liðin á körfum, forskoti og æsispennandi sóknar- og varnaraðgerðum.

Þegar mínúta var eftir var staðan 93-92 fyrir heimakonur og við áttum einungis eftir að fá eina körfu í viðbót. Sú karfa kom þegar 22 sekúndur voru eftir en þá keyrði Brittany Dinkins inn í teiginn og fann Kristu Gló Magnúsdóttur í horninu sem negldi niður þrist til að koma Njarðvíkingum í 93-95. Hún var svo aftur á ferðinni varnarlega þegar hún tók þátt í að stela boltanum af Haukum þegar 2.2 sekúndur voru eftir og hjálpaði þar með til við að vinna leikinn. Njarðvíkingar geta því farið heim á laugardaginn og freista þess að jafna metin í einvíginu. Frábær leikur í kvöld og það eru allar líkur á því að þetta verði frábær leikur á laugardaginn.

Diamond Battles var vísað út úr húsi og hafði það bæði góð og slæm áhrif.Vísir / Jón Gautur Hannesson

Atvik leiksin

Þriggja stiga skot Kristu Gló var atvik leiksins. Það er svo mikilvægt fyrir þá leikmenn sem eru svokallaðir rulluspilarar að taka skotin sem bjóðast þeim. Krista Gló er frábær skytta, sendi boltann í gegnum gjörðina og Njarðvíkinga í leik númer fjögur.

Stjörnur og skúrkar

Krista Gló Magnúsdóttir er aðalstjarna kvöldsins. Ekki nóg með þennan þrist þá skoraði hún 14 stig og stal tveimur boltum og þar af einum þegar sex sekúndur voru eftir. Brittany Dinkins var annars stigahæst hjá Njarðvík með 24 stig.

Brittany Dinkins fann fjölina sína aftur.Vísir / Jón Gautur Hannesson

Lore Devos var stjarna Haukanna, var með 35 stig og dró þær áfram í áttina að fyrirheitna landinu en það dugði ekki til. Hún hitti meðal annars úr níu af tíu vítum sínum og 12 af 20 skotum í heild. Diamond Battles þarf að fá skúrka nafnbótina en tæknivillan í fyrri hálfleik var algjörlega óþarfi. Búið var að dæma tæknivillu á Emil Barja fyrir mótmæli og Diamond hélt áfram og fékk tæknivillu. Það þýddi að óíþróttamannslega villan í seinni hálfleik var rándýr.

Lore Devos gerði 35 stig en hafði ekki erindi sem erfiði.Vísir / Jón Gautur Hannesson

Umgjörð og stemmning

Ólafssalur er náttúrlega búinn til fyrir þessa leiki. Troðfullur salur af mjög háværum stuðningsmönnum sem studdu liðin sín allna tímann.

Ljónahjörðin gat fagnað í kvöld.Vísir / Jón Gautur Hannesson

Dómararnir

Kristinn Óskarsson, Bjarki Þór Davíðsson og Ingi Björn Jónsson náðu að mínu mati að stýra þessu vel. Stóru ákvarðarnirnar negldar og leyfðu hárri spennu ekki að sjóða upp úr.

Viðtöl:

Emil: Fljótir að dæma tæknivilluna

Þjálfari Hauka, Emil Barja, var að vonum svekktur með leikinn sem hans konur töpuðu þegar þær hefðu getað tryggt sér Íslandsmeistaratitilinni. Hann var spurður út í það hversu súrt það væri að fá ekkert út úr leiknum þegar þær höfðu lagt svo mikið í að ná í skottið á Njarðvíkingum í seinni hálfleik.

„Það er auðvitað mjög súrt. Ég verð að hrósa Njarðvíkurliðinu því þær mættu brjálaðar og höfðu engu að tapa. Jú við náðum þeim en vorum kannski pínu búnar á því í síðari hálfleik.“

Haukar litu illa út í öðrum leihluta og misstu Njarðvíkinga 20 stigum frá sér og var Emil beðinn um að segja frá því hvað hafi gerst þar.

„Þær settu skotin sín og við ekki. Þær voru með 75% skotnýtingu í fyrri hálfleik. Við vorum staðar sóknarlega svo.“

Afhverju tók Emil ekki leikhlé á þessum tímapunkti þegar sprettur Njarðvíkinga náði í 17-0?

„Við ætluðum bara að halda áfram að hlaupa á þær og þreyta þær. Ég bjóst líka við að hafa Diamond inn á í seinni hálfleik og við ætluðum að halda tempóinu. Það gekk ágætlega því við náðum þessu niður í 13 stig í hálfleik.“

Diamond Battles var rekinn af velli eftir tæknivillu og óíþróttamannslega villu og var Emil beðinn um mat á óíþróttamannslegu villuna með hana á skjá fyrir framan sig.

„Við erum búin að æfa þetta í allan vetur að reyna að hægja á hverju einasta hraðaupphlaupi. Reglan er hinsvegar að ef þú reynir að leika boltanum þá á það bara að vera venjuleg villa og Kiddi Óskarss. var með mér á fundi um nákvæmlega þetta og ég skil þetta ekki. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta er óíþróttamannsleg villa í allan vetur. Í hin 25 skiptin sem þetta gerðist var þetta venjuleg villa. Ég skil ekki þessa ákvörðun. Kannski var það bara að þetta var dómurinn á gólfinu og ég skil ekki afhverju hann breytti þessu ekki.“

Emil var þá beðinn um að fara í gegnum tæknivillurnar sem hann og Diamond fengu í fyrri hálfleik. Misstu þau hausinn á þeim tíma?

„Nei nei, ég er búinn að fá nokkrar tæknivillur og átti hana skilið. Ég veit ekki hvað hún sagði en mér fannst þeir fljótir að dæma tæknivilluna.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira