Innlent

Kári Stefáns­son í beinni, „hryllingshús“ og trillukarlar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Kári Stefánsson verður í beinni í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Kári Stefánsson verður í beinni í kvöldfréttum Stöðvar 2. Vísir/Vilhelm

Kári Stefánsson, fyrrverandi forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að við fyrstu sýn hafi mátt lýsa aðferðum við uppsögn hans sem fantabrögðum. Það hafi hins vegar verið lygasaga sem olli brottrekstrinum. Við ræðum málið við Kára Stefánsson í beinni í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Faðir konu sem á að bera út úr íbúð Félagsbústaða segir aðra konu sem býr í fjölbýlishúsinu halda nágrönnum í heljargreipum. Hann furðar sig á því að ekki hafi tekið á málinu.

Strandveiðimenn réru til fiskjar í dag á fyrsta degi strandveiða. Þær verða með breyttu sniði í ár því ríkisstjórnin hefur fjölgað veiðidögum upp í fjörutíu og átta. Við verðum í beinni frá Hafnafjarðarhöfn og ræðum við strandveiðimann.

Þá mætir Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálum í myndver, og fer yfir aukna viðveru Ísraelshers á Gaza og við sjáum myndir frá peysufatadegi nemenda í Verzlunarskóla Íslands - sem báru armbönd til minningar um Bryndísi Klöru.

Í Sportpakkanum fjöllum við um nýja afreksmiðstöð Íslands fyrir okkar fremsta íþróttafólk og í Íslandi í dag kíkjum við í kennslustund þar sem nemendur læra að bjarga lífum.

Þetta og margt fleira í opinni dagskrá á samtengdum rásum Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×