Lífið

Söng­konan Jill Sobule lést í hús­bruna

Atli Ísleifsson skrifar
Jill Sobule á tónleikum árið 2019.
Jill Sobule á tónleikum árið 2019. Getty

Bandaríska söngkonan Jill Sobule, sem þekktust er fyrir lög sín I Kissed a Girl og Supermodel, er látin, 66 ára að aldri. Útgefandi Sobule segir að söngkonan hafi látist í húsbruna í Minneapolis í Minnesota í Bandaríkjunum.

BBC segir frá því að almennt sé talið að lag Sobule, I Kissed a Girl, hafi verið fyrsta lagið til komast í eitt að tuttugu efstu sætum Billboard-vinsældalistans og þar sem fjallað er um samkynhneigð.

Þá var lag hennar, Supermodel, eitt af einkennislögum kvikmyndarinnar Clueless frá 1995 sem skartaði Aliciu Silverstone í aðalhlutverki.

Bæði Supermodel og I Kissed a Girl voru á plötu sem nafnd var í höfuðið á söngkonunni og kom út árið 1995. Vinsældir seinna lagsins jukust á ný árið 2008 þegar söngkonan Katy Perry gaf út lag með sama nafni.

Sobule átti að koma fram á tónleikum í heimaborg sinni Denver í Colorado í kvöld.

Sobule fæddist 1959 og spannaði tónlistarferill hennar einhverja þrjá áratugi. Í textum laga hennar var meðal annars tekið á málum eins og dauðarefsingum, átröskun og réttindum hinsegin fólks.

Lögregla í hverfinu Woodbury í Minneapolis rannsakar nú upptök brunans þar sem Sobule lést.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.