Enski boltinn

Chelsea meistari sjötta árið í röð

Sindri Sverrisson skrifar
Chelsea fagnar sigurmarki Lucy Bronze í kvöld.
Chelsea fagnar sigurmarki Lucy Bronze í kvöld. Getty/Harriet Lander

Yfirburðir Chelsea í knattspyrnu kvenna á Englandi halda áfram en liðið varð í kvöld Englandsmeistari sjötta árið í röð.

Chelsea hefur nú unnið ensku ofurdeildina alls níu sinnum, eða þrefalt oftar en nokkurt annað lið frá stofnun deildarinnar fyrir fimmtán árum.

Eftir 5-2 tap Arsenal gegn Aston Villa í kvöld þurfti Chelsea aðeins að ná í stig gegn Manchester United til að tryggja sér sjötta titilinn í röð. Það gerði liðið og gott betur því Chelsea vann 1-0 útisigur á United, með skallamarki Lucy Bronze.

Þar með er Chelsea, sem ekki hefur tapað leik á tímabilinu, með 54 stig eftir 20 leiki, níu stigum á undan Arsenal þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.

Chelsea-konur náðu því að hrista af sér vonbrigðin eftir að hafa steinlegið gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á sunnudaginn, 4-1, og tapað því einvígi samtals 8-2. 

Chelsea getur unnið þrefalt á Englandi því liðið mætir Manchester United í bikarúrslitaleik 18. maí og hafði áður unnið deildabikarinn í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×