Fótbolti

Ten Hag lík­legur til að taka við af Alonso

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ten Hag átti erfiða tíma í Manchester en skilaði þó tveimur titlum í hús.
Ten Hag átti erfiða tíma í Manchester en skilaði þó tveimur titlum í hús. Alex Livesey/Getty Images

Sky Sports í Þýskalandi segir Bayer Leverkusen með auga á Hollendingnum Erik ten Hag. Hann sé ofarlega á lista til að taka við liðinu í sumar.

Allt benti til þess að Ítalinn Carlo Ancelotti myndi taka við brasilíska landsliðinu í sumar og hætti sem þjálfari Real Madrid. Marca á Spáni greindi frá því í morgun að Ancelotti hefði tekið u-beygju og hafnað Brössum en þrátt fyrir það bendir allt til þess að þjálfarabreyting verði í spænsku höfuðborginni.

Spænskir miðlar hafa greint frá því í vikunni að Madrídingar séu langt komnir með ráðningu Xabi Alonso, þjálfara Bayer Leverkusen.

Alonso muni taka við af Ancelotti og því þurfi Leverkusen að fara í þjálfaraleit.

Leverkusen hefur ekki haft samband við neina kandídata í starfið. Samkvæmt Sky er undirbúningsvinna komin á fullt varðandi ráðningu nýs þjálfara, fari það svo að Alonso flytji til Madrídar.

Erik ten Hag var sagt upp hjá Manchester United síðasta haust. Hann stýrði liðinu í rúmar tvær leiktíðir og vann bæði enska deildabikarinn og ensku bikarkeppnina með liðinu. Áður hafði hann unnið hollensku deildina í þrígang með Ajax.

Ten Hag þekkir til í Þýskalandi eftir að hafa stýrt varaliði Bayern Munchen árin 2013 til 2015.

Imanol Aguacil, stjóri Orra Steins Óskarssonar hjá Real Sociedad, mun yfirgefa Baskafélagið í sumar og er einnig sagður á lista hjá Leverkusen til að taka við af landa hans Alonso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×