Körfubolti

Slapp vel frá rafmagnsleysinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tryggvi treður.
Tryggvi treður. vísir / anton

Tryggvi Snær Hlinason æsti sig ekki mikið yfir rafmagnsleysi á Spáni í vikunni. Hann býr í baskneskum hluta landsins, í borginni Bilbao, sem slapp heldur vel og þá er hann vanur rafmagnsveseni úr sveitinni í Bárðardal.

Ástandið á Íberíuskaga í byrjun vikunnar hefur farið fram hjá fáum. Víðtækt rafmagnsleysi um gjörvallan Spán og Portúgal hafði mikil áhrif á daglegt líf fólks.

„Þetta er náttúrulega töluvert sjokk þegar rafmagnið fer af öllu landinu. Það voru sumir staðir sem voru úti í einhverja sex tíma. Þá fóru menn svolítið í búðirnar og byrjuðu að tæma þær eins og stundum er þegar eitthvað óeðlilegt gerist. Það var svo sem ekki mikið brjálæði á Spánverjum, þeir voru frekar rólegir,“ segir Tryggvi í samtali við íþróttadeild.

Bara klukkutími í Bilbao

Tryggvi slapp lukkulega vel þar sem ástandið var hvað skást í Baskalandi, en einhverjir liðsfélagar hans lentu í ógöngum.

„Hérna í Bilbao var þetta ekkert mikið. Það fór rafmagnið í um það bil klukkutíma. Jú, maður tók alveg eftir því en það helsta sem maður tekur eftir er hvað mannkynið lifir og deyr með rafmagninu,“

„Það voru sumir liðsfélagar mínir sem lentu aðeins verr í þessu en ég. Það var einn sem festist næstum því í lyftu og annar sem læstist fyrir utan því við erum með hnapp til að komast inn. Ég henti niður lykli til hans, svo hann komst inn. Svo var hitt og þetta óhentugt dæmi, en ekkert miðað við það sem maður heyrði,“ segir Tryggvi.

Tryggvi ólst upp í Svartárkoti í Bárðardal og kveðst vanur rafmagnsleysi til skamms tíma. Hann stressaði sig því ekki mikið á þessu öllu saman.

„Nei, ég kem úr sveitinni þar sem þetta gerðist reglulega, um einu sinni á ári þegar fraus fyrir sigtið. Við fórum bara að spila og svo að reyna að komast að því hvað væri að gerast,“ segir Tryggvi.

Viðtalið úr Sportpakka gærkvöldsins má sjá í spilaranum að ofan.


Tengdar fréttir

Létt í lund þrátt fyrir margra klukkustunda bið eftir Lissabon

Sögulegt rafmagnsleysi á Spáni og Portúgal í gær olli alvarlegum samgöngutruflunum á landsvísu, en rafmagnsleysið varði í margar klukkustundir. Segja má að Icelandair og Play air hafi sloppið vel í gær og í dag varðandi flugáætlun til landanna tveggja. Flug Play til Lissabon í gær raskaðist þó verulega.

Or­sakir raf­magns­leysisins sögu­lega enn óþekktar

Spænsk stjórnvöld hafa enn engar skýringar á því hvað olli fordæmalausu rafmagnsleysi á Íberíuskaga í gær. Rannsókn er sögð geta tekið fleiri mánuði. Daglegt líf er nú að komast aftur í fyrra horf.

Allt að komast í samt lag á Spáni og í Portúgal

Rafmagn er nú komið á að nýju á nær öllum Íberíuskaganum eftir víðtækt rafmagnsleysi á svæðinu í gær. Níutíu og níu prósent allra heimila á Spáni eru komin með rafmagn og svipaða sögu er að segja frá Portúgal að sögn yfirvalda.

„Við erum mjög háð rafmagninu“

Fordæmlaust rafmagnsleysi var á Íberíuskaganum fyrr í dag. Verkefnastjóri hjá Landsneti segir mögulega hitabreytingar hafa ollið trufluninni. Öll flutningskerfi í Evrópu glíma við erfiðleika þar sem orkunotkun eykst sífellt.

Sambandsleysi í suðri og óviðunandi ástand í fangelsum

Samgöngutruflanir og sambandsleysi urðu á Spáni og Portúgal eftir að rafmagn fór af löndunum tveimur í dag. Íslendingar á Spáni lýsa mikilli óvissu um ástandið og framhaldið. Við fjöllum um rafmagnsleysið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld og ræðum við rafmagnsverkfræðing um málið, og mögulegar orsakir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×