Íslenski boltinn

Gunnar Jarl reif flautuna af hillunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnar Jarl við störf á sínum tíma.
Gunnar Jarl við störf á sínum tíma. Vísir

Gunnar Jarl Jónsson var eitt sinn besti knattspyrnudómari Íslands. Vegna meiðsla lagði hann flautuna á hilluna árið 2019 en dæmdi á þriðjudag sinn fyrsta meistaraflokks síðan þá.

Það er Fótbolti.net sem bendir á að Gunnar Jarl hafi dæmt vináttuleik Selfyssinga og Þróttar Reykjavíkur. Bæði lið leika í Lengjudeildinni á komandi tímabili. Það var í nægu að snúast í leiknum sem fór 3-0 fyrir Þrótti. Alls fóru þrjú gul á loft, eitt rautt og þá dæmdi Gunnar Jarl eina vítaspyrna.

Hallur, Gunnar og Elmar.Fótbolti.net

Selfyssingar gætu ef til vill kvartað að dómarateymið eins og það lagði sig hafi komið úr Reykjavík en ásamt Gunnari voru Hallur Hallsson, íþróttafulltrúi félagsins, og Elmar Svavarsson, Þróttari mikill, aðstoðardómarar. Heimildarmaður Fótbolti.net segir þríeykið þó hafa dæmt leikinn óaðfinnanlega.

Gunnar var valinn dómari ársins á Íslandi af Fótbolti.net bæði 2012 og 2014. Hann hefur haldið sér við síðan flautan fór á hilluna með því að dæma á alþjóðlega fótboltamótinu ReyCup sem haldið er ár hvert í Laugardalnum. Þá er hann í dag þjálfari dómara og situr í dómaranefnd KSÍ.

Það stefnir þó ekki í endurkomu segir í frétt Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×