Enski boltinn

Fór út í dular­gervi eftir að Barton byrjaði að bauna á hana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eni Aluko er reglulega spotspónn Joeys Barton á X.
Eni Aluko er reglulega spotspónn Joeys Barton á X. getty/Mike Egerton

Eni Aluko, fyrrverandi framherji enska fótboltalandsliðsins, segist hafa fengið færri tækifæri í sjónvarpi eftir að hún kærði Joey Barton fyrir meiðyrði.

Barton er í nöp við Aluko og aðrar konur sem hafa fjallað um karlafótbolta í fjölmiðlum og hefur skotið fast á þær á samfélagsmiðlum. Aluko fékk á endanum nóg og kærði Barton. Hún segir að það hafi kostað sitt.

„Þetta gerist á mörgum vígstöðvum. Þegar konur standa upp fyrir sjálfum sér geldur ferilinn fyrir það. Ég hef verið í sjónvarpi í ellefu ár. Ég er ekki nýliði. Og síðustu átján mánuði hef ég aldrei fengið minna að gera,“ sagði Aluko við í viðtali við BBC.

„Það er staðreynd. Það er ekki tilfinning, það er skoðun. Það er staðreynd. Svo ég held að fólk geti dregið sínar eigin ályktanir af því. Það sem Joey Bartonar og sumir karlkyns fótboltaaðdáendur vilja er að losna við konur úr sjónvarpi.“

Aluko segist hafa fengið hótanir og orðið fyrir netníði eftir að Barton byrjaði að tjá sig um hana á X og hún hafi fyrst um sinn ekki þorað að fara út úr húsi án þess að dulbúa sig.

„Joey Barton hefur skrifað 45 færslur um mig. Það hefur áhrif á þig í daglega lífinu. Þetta er eins og alda af níði og þér líður eins og þú sért í fiskabúri. Ég er meira var um mig en áður,“ sagði Aluko.

„Mér finnst ég ekki geta farið út og gert það sem ég vil. Fyrstu vikuna fór ég út í dulargervi. Sumum finnst það of langt gengið en þetta hafði raunverulega þessi áhrif á mig.“

Aluko lék 105 leiki fyrir enska landsliðið á árunum 2004-16 og skoraði 33 mörk. Hún lagði skóna á hilluna 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×