Fótbolti

Daníel Leó með mikil­vægt sigur­mark á meðan Kol­beinn skoraði í tapi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daníel Leó tryggði mikilvægan sigur í dag.
Daníel Leó tryggði mikilvægan sigur í dag. Sönderjyske

Daníel Leó Grétarsson kom Sönderjyske 3-1 yfir í mikilvægum sigri í Álaborg þegar liðin mættust í efstu deild dönsku knattspyrnunnar. Leikurinn endaði með 3-2 sigri gestanna og mark Daníels Leó því sigurmarkið. Kolbeinn Þórðarson skoraði þá fyrra mark Gautaborgar í tapi gegn BK Häcken.

Daníel Leó Grétarsson kom Sönderjyske 3-1 yfir í mikilvægum sigri í Álaborg þegar liðin mættust í efstu deild dönsku knattspyrnunnar. Leikurinn endaði með 3-2 sigri gestanna og mark Daníels Leó því sigurmarkið. Var þetta þriðji sigur liðsins í röð.

Daníel Leó var í byrjunarliði Sönderjyske og lék allan leikinn í hjarta varnarinnar. Kristall Máni Ingason kom inn af bekknum á 67. mínútu fyrir Lirim Qamili sem skoraði fyrstu tvö mörk liðsins.

Nóel Atli Arnórsson kom inn af bekknum hjá heimamönnum á 55. mínútu og lagði upp fyrra mark þeirra aðeins tíu mínútum síðar þegar reynsluboltinn Nicklas Helenius minnkaði muninn í 1-2. Það var svo Kasper Jørgensen sem minnkaði muninn í 2-3 eftir að Daníel Leó hafði skorað það sem reyndist sigurmarkið.

Sigurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir Sönderjyske sem er nú með 29 stig, sex stigum meira en Álaborg og tíu meira en Lyngby sem situr í fallsæti. Sævar Atli Magnússon og félagar í Lyngby eiga hins vegar leik til góða.

Daníel Leó hefur spilað 19 af 27 leikjum Sönderjyske á leiktíðinni. Með hann í liðinu hefur liðið fengið 1,42 stig í leik á móti 0,25 í leik án hans. Það má því með sanni segja að miðvörðurinn sé stór ástæða þess að liðið er í góðri stöðu til að halda sæti sínu.

Súrt tap í Svíþjóð

Í Svíþjóð hafði Kolbeinn fengið gult spjald þegar hann jafnaði metin fyrir Gautaborg gegn BK Häcken á 38. mínútu. Gautaborg komst yfir á lokamínútu venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik en því miður jafnaði Häcken metin áður en flautað var til loka hálfleiksins. 

Kolbeinn var svo tekinn af velli þegar klukkustund var liðin og því miður fyrir hann og Gautaborg skoruðu gestirnir sigurmarkið á sjöundu mínútu uppbótartíma, lokatölur 2-3.

Gautaborg er eftir leikinn í 10. sæti efstu deildar Svíþjóðar með sex stig að loknum fjórum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×