Innlent

Tveir hand­teknir vegna líkams­á­rásar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Árásin átti sér stað utandyra í miðbæ Ísafjarðar.
Árásin átti sér stað utandyra í miðbæ Ísafjarðar. Vísir/Einar

Karl og kona voru handtekin í nótt vegna líkamsárásar í Ísafjarðarbæ. Veist var að tveimur til þremur einstaklingum í miðbæ bæjarins í nótt. Málið er á frumstigi.

„Það var tilkynnt um það í nótt í miðbænum utandyra,“ segir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum. Tilkynning barst lögreglu á milli klukkan eitt og tvö aðfaranótt laugardags.

„Það var tilkynnt um að allaveganna tvennt hafi veist að tveimur, þremur einstaklingum hérna. Þau voru handtekin og eru í klefa. Afleiðingarnar eru svo sem ekki alvarlegar en samt var ákveðið að taka þetta föstum tökum,“ segir Hlynur.

Hann staðfesti að einstaklingarnir tveir væru karl og kona. Þau verða yfirheyrð á næstu klukkustundum. Einstaklingarnir sem urðu fyrir árásinni séu ekki alvarlega slasaðir og var einungis einn fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsi

„Þetta var svona með þeim hætti að það var ákveðið að taka þessu föstum tökum,“ segir Hlynur.

Þúsundir manna eru á Ísafirði núna á þar sem hátíðin Aldrei fór ég suður fer fram. Að hans sögn tengdist árásin ekkert hátíðinni.

„Þetta var löngu eftir að Aldrei fór ég suður var lokið, í miðbænum bara. Þetta kemur tónleikunum ekkert við,“ segir Hlynur.

„Þetta er á frumstigi þannig við getum ekki farið nánar út í þetta.“

Fréttastofa RÚV greindi fyrst frá. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×