Enski boltinn

Van de Ven: Tottenham vill vinna Evrópudeildina fyrir Postecoglou

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Micky van de Ven og félagar í Tottenham Hotspur þurfa sigur í Þýskalandi í kvöld ætli þeir i undanúrslit Evrópudeildarinnar.
Micky van de Ven og félagar í Tottenham Hotspur þurfa sigur í Þýskalandi í kvöld ætli þeir i undanúrslit Evrópudeildarinnar. Getty/ Visionhaus

Micky van de Ven og félagar í Tottenham verða í eldlínunni í kvöld í seinni leik liðsins í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Félagið hefur ekki unnið titil í sautján ár og Evrópudeildin er eini bikarinn sem félagið á enn möguleika á því að vinna á þessu tímabili.

Ástralski knattspyrnustjórinn Ange Postecoglou hefur verið mikið gagnrýndur í vetur en hollenski miðvörðurinn segir að leikmenn liðsins vilji vinna Evrópudeildina fyrir Postecoglou.

Tottenham tapaði 4-2 fyrir Úlfunum um síðustu helgi og það var sautjánda tap liðsins á leiktíðinni. Það þýðir að liðið er dottið niður í fimmtánda sætið í ensku úrvalsdeildinni.

Það er verk að vinna í Evrópudeildinni eftir 1-1 jafntefli á heimavelli í fyrri leiknum á móti Eintracht Frankfurt.

„Þetta hefur ekki verið okkar besta tímabil og stuðningsmennirnir vilja sjá okkur spila betur og gera betur en við gerðum í þessum tapleikjum. Þegar allt liðið er öflugt þá getum við unnið falleg afrek. Vonandi getum við sýnt öllum þeim það sem efast um okkur,“ sagði Micky van de Ven á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Við höfum fulla trú á stjóranum og hvernig hann vill að við spilum. Við viljum vinna titilinn fyrir hann en einnig fyrir okkur, fyrir félagið og fyrir stuðningsmennina,“ sagði Van de Ven.

„Við viljum afreka eitthvað á þessari leiktíð og þetta er besti möguleikinn til þess,“ sagði Van de Ven.

Tottenham vann sinn síðasta titil árið 2008 þegar liðið vann enska deildabikarinn. Liðið vann síðast Evrópukeppni vorið 1984 þegar Tottenham fagnaði sigri í UEFA-keppninni, forvera Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×