Innlent

„Vís­bendingar um að fjár­hagur sé að vænkast hjá borginni“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Opnunartími sundlauga Reykjavíkur lengist í sumar.
Opnunartími sundlauga Reykjavíkur lengist í sumar. Vísir/Vilhelm

Menningar- og íþróttaráð Reykjavíkur hefur tekið ákvörðun um að lengja opnunartíma sundlauga um klukkutíma í sumar. 20 milljónir spöruðust í fyrra þegar opnunartíminn var styttur.

Opnunartími sundlauga Reykjavíkur var styttur í apríl á síðasta ári og lokuðu sundlaugar þá klukkan 21 á kvöldin í stað 22 eins og áður var. Ákvörðunin vakti reiði margra og meðal annars foreldra ungs fólks sem sögðu sundlaugarnar vinsæla kvöldafþreyingu og gott mótvægi við skjánotkun.

Nú hefur menningar- og íþróttaráð borgarinnar hins vegar ákveðið að lengja opnunartímann á ný fyrir sumarið. Oddur Ævar Gunnarsson fréttamaður ræddi við Skúla Helgason formann ráðsins í kvöldfréttum og spurði af hverju þessi ákvörðun hefði verið tekin.

„Það er bara af því að það er svo frábært að fara í sund í sumrin. Við þurftum að stytta útaf hagræðingakröfum í fyrra en nú eru vísbendingar um að fjárhagur sé að vænkast hjá borginni.“

„Svo erum við líka að hlusta á það að það skiptir máli upp á forvarnir og heilsu, ekki síst ungu kynslóðarinnar, að drífa sig í sund og nota sundið sem mest. Það er blanda af þessu tvennu.“

Lengdur opnunartími sundlauga kostar borgina sjö milljónir króna en Skúli segir að þetta skref sé tekið í tilraunaskyni.

„Þetta eru ekki risafjármunir en þeir skipta máli í rekstrinum þegar þarf að velta við hverjum steini. Það spöruðust 20 milljónir með því að stytta opnunartímann í fyrra. Nú erum við að taka þetta skref til baka í tilraunaskyni, kannski getum við tekið enn stærra skref á næsta ári. Við vonum það auðvitað,“ bætti Skúli við.

Alla fréttina úr Kvöldfréttum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×