Erlent

For­dæma harka­lega á­rás Rússa á Sumy

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Tvær stórar rússneskar skotflaugar lentu á miðbæ Sumy í gærmorgun.
Tvær stórar rússneskar skotflaugar lentu á miðbæ Sumy í gærmorgun. AP

Helstu bandamenn Úkraínumanna í stríði þeirra við innrásarher Rússa hafa fordæmt harkalega eldflaugaárásina sem gerð var á borgina Sumy í gærmorgun. Þrjátíu og fjórir létu lífið og um 120 særðust í árásinni, sem er sú mannskæðasta á þessu ári í stríðinu.

Tvær stórar skotflaugar lentu á miðbæ Sumy og sprungu í loft upp nálægt háskóla borgarinnar og helstu ráðstefnumiðstöð hennar með hræðilegum afleiðingum.

Friedrich Merz, verðandi kanslari Þýskalands, sakar Rússa um að hafa framið stríðsglæp og Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að árásin hafi verið hræðileg, en tók þó fram að Rússar hafi sagt sér að um mistök hafi verið að ræða.

Árásin kemur á sama tíma og Bandaríkjamenn hafa lagt mikið kapp á að koma á vopnahléi í stríðinu, enda hafði Trump sagt í kosningabaráttunni að hann gæti komið á friði í Úkraínu á einum sólarhring. Það hefur ekki gengið eftir og þrátt fyrir tilraunir til þess að semja hefur hvorki gengið né rekið.

Volodómír Selenskí Úkraínuforseti hvetur nú Trump til þess að heimsækja Úkraínu og sjá með eigin augum þá eyðileggingu og hörmungar sem Rússar hafi kallað yfir landið.

Aðrir leiðtogar á borð við Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hafa fordæmt árásina á Sumy harðlega og minnt á að Rússar séu árásaraðilinn í stríðinu og það séu þeir sem hafi gerst ítrekað brotlegir við alþjóðalög.


Tengdar fréttir

Tugir sagðir liggja í valnum eftir eldflaugaárás á Sumy

Margir óbreyttir borgarar eru sagðir liggja í valnum eftir að að minnsta kosti ein rússnesk skotflaug lenti í miðborg Sumy í norðurhluta Úkraínu. Sprengjuflaugin lenti þegar margir voru á götum borgarinnar og á leið til kirkju að fagna pálmasunnudegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×