AP-fréttaveitan greinir frá því að samkomulag hafi náðst milli íhaldsflokka og flokka vinstra megin við miðju, eftir nokkurra mánaða pólitískan óstöðugleika í landinu. Þjóðverjar gengu að kjörborðinu þann 23. febrúar síðastliðinn, þar sem Kristilegir demókratar fengu 28,6 prósent atkvæða, eða 208 þingsæti.
Kynnt síðdegis
Eftir kosningarnar hófust viðræður milli Kristilegra demókrata og Sósíaldemókrata, flokks Olafs Scholz kanslara, um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Sósíaldemókratar fengu 16,4 prósent, 120 þingsæti. Saman eru flokkarnir því með 328 sæti á þýska þinginu, af 630.
Efni samkomulags milli flokkanna liggur ekki fyrir samkvæmt AP, en nýja stjórnin verður kynnt á blaðamannafundi klukkan 13 að íslenskum tíma.
Hafa þegar komið málum í gegn
Þingkosningum í Þýskalandi, sem fóru fram í febrúar, var flýtt um sjö mánuði. Var það eftir að óvinsæl ríkisstjórn Olafs Scholz féll.
Þrátt fyrir að ríkisstjórn hafi ekki verið mynduð frá kosningum tóku flokkarnir, sem nú virðast hafa náð lendingu í viðræðum sínum, höndum saman um að koma ákveðnum málum í gegnum þingið.
Í síðasta mánuði samþykktu þeir að slaka á reglum um nýjar skuldir ríkisins, með það fyrir augum að geta aukið við fjárútlát til varnarmála, og til að geta komið á fót innviðasjóði. Í kosningabaráttunni hafði flokkur Merz talað gegn því að ríkið stofnaði til nýrra skulda.