Arsenal gerði sér lítið fyrir og lagði Evrópumeistara Real Madríd 3-0 þökk sé glæsilegri aukaspyrnu tvennu Declan Rice og marki frá Mikel Merino.
Fyrri hálfleikurinn í Lundúnum var ekki mikið fyrir augað og ljóst að hvorugt lið ætlaði að gefa óþarfa færi á sér, staðan því markalaus í hálfleik.

Gestirnir hafa verið nokkuð brothættir að undanförnu og hvað sem Carlo Ancelotti sagði í hálfleikshléinu þá virkaði það engan veginn. Á sama tíma virðist Mikel Arteta hafa sagt alla réttu hlutina.
Brotið var á Bukayo Saka þegar tæp klukkustund var liðin. Declan Rice, sem hafði aldrei skorað úr aukaspyrnu á ferlinum, stillti boltanum upp og sveigði hann utan við varnarmúr gestanna og í netið.
Auðvelt væri að setja spurningamerki við Thibaut Courtois í marki gestanna en slík var sveigjan á boltanum að það er ekki hægt að svo stöddu. Eftir þetta tóku heimamenn öll völd á vellinum og varði Courtois nokkrum sinnum meistaralega sem og varnarmenn Real björguðu á línu.

Það kom þó enginn vörnum við þegar Arsenal fékk aðra aukaspyrnu á 70. mínútu. Aftur stillti Rice boltanum upp og að þessu sinni þrumaði hann honum upp í samskeytin. Algjörlega óverjandi. Mikel Merino gerði svo út um leikinn og mögulega einvígið nokkrum mínútum síðar.
Til að bæta gráu ofan á svart lét Eduardo Camavinga senda sig í sturtu í uppbótartíma þegar hann fékk sitt annað gula spjald. Hann var hins vegar alltaf að fara missa af síðari leik liðanna eftir að fá gult fyrr í leiknum.
Lokatölur 3-0 í Lundúnum og ljóst að Evrópumeistararnir þurfa kraftaverk ætli þeir sér að verja titilinn.
