Í tilkynningu kemur fram að áhersla hafi á ráðstefnunni verið lögð á leiðtogafærni, hugrekki og sjálfbæra framtíð þar sem öflugur hópur fyrirlesara deildu á kraftmikinn en einlægan hátt sinni reynslu.
Jóhann Páll Jóhannson, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, flutti opnunarávarp ráðstefnunnar og lýsti vilja ráðuneytisins til samstarfs við KÍO.
„Ég hef mælt fyrir einföldun á leyfisferlum í orkumálum og er boðinn og búinn til samstarfs við KÍO um greiningar, átaksverkefni eða hvað eina sem tengist markmiðum samtakanna.“

Selma Svavarsdóttir, formaður stjórnar KÍO, ræddi mikilvægi tengslamyndunar, þakkaði fyrir mikinn áhuga á KÍO deginum og lýsti orkugeiranum sem spennandi og vaxandi vettvangi fyrir fjölbreyttan hóp.
Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis og verðandi forstjóri Landsnets kallaði eftir nýrri sýn á mistök:
„Orðið ‘mistök’ er óþolandi – þau eru ekkert annað en reynsla. Við þurfum nýtt orð yfir mistök.“

Þórhallur Gunnarsson og Andrés Jónsson, ráðgjafar í framkomu og leiðtogafærni, tóku undir orð Rögnu og hvöttu til þess að hætt yrði að tala um mistök. Þess í stað lögðu þeir til að orðið reynsluspor yrði tekið upp.
Anna Signý Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Kolibri, minnti á hugrekki sem vöðva sem þarf að þjálfa:
„Það er engin heppni í því að vera rétt manneskja – maður þarf að vinna í því og sækjast í það sem mann langar til að gera.“

Ingunn Agnes Kro, stjórnarformaður RARIK, talaði um leiðina að stjórnarsæti og minnti á mikilvægi þess að átta sig á þeirri færni og reynslu sem við búum yfir og gagnleg er fyrirtækjum.
Guðný Helga Jónsdóttir, forstjóri VÍS, talaði um mikilvægi þess að leiðtogar byggi upp jákvæða vinnustaðamenningu með heiðarleika og gleði að leiðarljósi:
„Það er ekkert mál að ná skjótum árangri í mikilli árangursmenningu – en það er nánast útilokað til lengri tíma nema fólki líði vel. Vinnustaðamenning er langhlaup, ekki spretthlaup.“

Hún lagði jafnframt áherslu á að árangur og umhyggja væru ekki andstæður heldur samverkandi kraftar.
„Ég hef óþol fyrir leiðindum – það er gleðin sem knýr mig áfram.“
