United og City gerðu markalaust jafntefli í bragðdaufum grannaslag á Old Trafford í gær.
Foden var í byrjunarliði City og í fyrri hálfleik sungu stuðningsmenn United niðrandi söngva um móður hans. Guardiola segir að söngvarnir hafi verið stuðningsmönnunum til minnkunar.
„Það var enginn klassi yfir þessu. En þetta er ekki United, þetta er fólkið. Við erum svo berskjaldaðir, fólk sem er á skjánum í fótboltanum; stjórar, eigendur og sérstaklega leikmenn,“ sagði Guardiola.
„Í hreinskilni sagt skil ég ekki hvað gengur á í huga fólks sem blandar móður Phils í þetta. Þetta er skortur á heiðarleika, klassa og þeir ættu að skammast sín.“
City er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en United í því þrettánda. Bæði lið eiga eftir að leika sjö leiki á tímabilinu.