Skoðun

Frá frammistöðuvæðingu til far­sældar

Helga Þórey Júlíudóttir skrifar

Áður voru hlutverk innan skólakerfisins aðgreind með skýrum hætti. Skólastjórnendur stjórnuðu skólunum, kennarar kenndu og nemendur hlýddu og lærðu. Í dag er þetta breytt þar sem ábyrgðin á námi nemenda er orðin sameiginleg þar sem allir aðilar skólasamfélagsins vinna saman að því markmiði að efla menntun, þar sem nemendur læra að bera ábyrgð á eigin námi.

Þegar horft er til námsmats og árangurs má merkja skýra breytingu á áherslum. Í fortíðinni var megináhersla lögð á mælanlegan árangur og lokamat og þá sérstaklega í bóklegum greinum og það nýtt til að meta menntakerfið í heild sinni. Í dag er litið til námsferlis sem sjálfstæðs verðmætis þar sem áhersla er lögð á heildstæða námsreynslu nemenda þar sem þroski, vellíðan og virk þátttaka eru ekki síður mikilvæg en lokaárangur.

Nútímalegir námshættir byggja á þeirri sýn að nemendur séu ólíkir, hafi mismunandi forsendur og þurfi fjölbreyttar leiðir til að ná árangri. Þeir eiga að taka virkan þátt í ákvarðanatöku um eigið nám ásamt kennurum. Þannig verða til raunveruleg námstækifæri og nemendur verða meðvitaðir um eigin námsframvindu.

Markmið menntunar í nútímasamfélagi er ekki eingöngu að skila árangri á prófum, heldur að stuðla að aukinni farsæld. Nemendum er leiðbeint að heildstæðum þroska og hæfni til að taka þátt í samfélaginu af ábyrgð með hæfni til gagnrýninnar hugsunar.

Á tíma innleiðingar farsældar hefur frammistöðuvæðing skólakerfisins undir sterkum áhrifum frá stjórnvöldum og atvinnulífinu ýtt undir kröfur um frekari stýringu, strangara eftirlit og aukið mat. Umræðan í garð kennara hefur oft verið óvægin og byggð á úreltum hugmyndum um skyldu þeirra til að skila mælanlegum árangri í bóklegum greinum.

Það er nokkuð ljóst að matstækin sem þróuð voru á 19. og 20. öld henta illa því hlutverki sem menntun gegnir í dag. Mælingar verða að endurspegla núverandi tilgang menntunar sem er að styrkja sjálfstæði, gagnrýna hugsun og sköpun nemenda fremur en að styðja við kerfi sem grafa undan fjölbreytni og ólíkum eiginleikum.

Nútíma skóli hefur skapað menningu þar sem nemendur hafa rödd, þar sem þeir hafa áhrif og vilja til að læra. Slík námsmenning eflir námsáhuga og viljann til að taka ábyrgð á eigin námi. Hún byggir á námsvitund, hæfni til að vilja „læra að læra“, og viðurkenningu á því að nám eigi sér stað í síbreytilegu félagslegu og menningarlegu samhengi. Með þessum hætti verða til varanleg námstækifæri.

Ef markmið menntunar í dag er að efla farsæld, sjálfstæða hugsun og virka þátttöku í samfélaginu verðum við þá ekki að endurskoða hvernig við metum árangur og hvað við teljum raunverulega mikilvægt í námi?

Höfundur er sérkennari í Tækniskólanum og situr í stjórn Skólamálanefndar FF og stjórn Félags sérkennara á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×