Enski boltinn

Enskir fjöl­miðlar segja Chelsea hafa brotið reglur UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cole Palmer er leikmaður Chelsea en félagið virðast hafa komið sér í vandræði hjá UEFA.
Cole Palmer er leikmaður Chelsea en félagið virðast hafa komið sér í vandræði hjá UEFA. Getty/Alex Pantling

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea gæti átt von á refsingu frá Knattspyrnusambandi Evrópu eftir að enskir miðlar birtu í dag fréttir um það að Lundúnafélagið hafi brotið rekstrarreglur UEFA.

Chelsea er sagt vera í viðræðum við UEFA um lausn málsins. BBC skrifar um meint brot í fréttum sínum en The Times staðfestir að Chelsea hafi brotið reglurnar.

Málið snýst um síðasta fjárhagsár hjá Chelsea en það endaði í júní á síðasta ári.

Rekstur Chelsea skilaði 128,4 milljónum punda í tekjur fyrir skatt samkvæmt ársreikningum en það virðist sem eitthvað bókhaldsbrask hafi verið í gengi samkvæmt reglum UEFA.

Líklegast er það tengt því að Chelsea seldi BlueCo kvennalið félagsins en Chelsea er sjálft í eigu BlueCo. Verðmiðinn var yfir 24 milljarða íslenskra króna sem er það mesta sem hefur verið borgað fyrir kvennafótboltalið í sögunni.

Knattspyrnusamband UEFA leyfir ekki slíkar sölur milli tengdra aðila þótt að enska úrvalsdeildin geri það.

Fái Chelsea ekki að taka þessa sölu með inn í rekstrarreikning sinn þá er hætt við því að félagið sé að brjóta rekstrarreglur UEFA þar sem að rekstrartapið félagsins er þá of mikið.

Chelsea á einnig að hafa tekið með tvær sölur á hótelum til annars félags í eigu BlueCo en sala milli systrafélaga er ekki leyfð í uppgjöri til UEFA.

Viðræður eiga að vera í gangi samkvæmt frétt BBC. Líklegasta niðurstaðan er sekt en ný brot gætu líka kallað á harðari refsingar á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×