Viðskipti innlent

Sveinn ráðinn verk­efna­stjóri er­lends sam­starfs

Atli Ísleifsson skrifar
Sveinn Helgason.
Sveinn Helgason. Samorka

Sveinn Helgason hefur verið ráðinn verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, með starfsstöð í Brussel og einnig í Reykjavík.

Í tilkynningu frá Samorku segir að þessi nýja staða hjá samtökunum sé liður í að efla enn frekar samstarf þeirra við erlend systursamtök, vöktun á þróun Evrópureglna, hagsmunagæslu og upplýsingamiðlun á þessu sviði.

„Sveinn var um árabil fréttamaður og þáttastjórnandi hjá RÚV og fjallaði þá töluvert umorkumál. Undanfarin ár hefur hann starfað við upplýsingamiðlun hjá fjölþjóðaliðum Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi og Litháen og í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel, lengst af sem útsendur sérfræðingur utanríkisráðuneytisins. Sveinn var einnig sérfræðingur á skrifstofu almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu í þrjú og hálft ár og hafði þá m.a. málefni Landhelgisgæslunnar á sinni könnu,“ segir í tilkynningunni.

Sveinn verður með vinnuaðstöðu á Norrænu orkuskrifstofunni í Brussel þar sem norræn systursamtök Samorku eru einnig til húsa.

Sveinn er með meistaragráðu í opinberri stefnumótun (Public Policy) frá George Mason háskólanum í Bandaríkjunum og með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann hóf störf 1. apríl.

Haft er eftir Finni Beck, framkvæmdastjóra Samorku, að sú löggjöf og regluverk sem móti starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja sé að stórum hluta upprunnin frá Evrópusambandinu og tekin upp hér á landi í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það sé því mikilvægt að vakta vel þá hröðu þróun, skilja hana og miðla til aðildarfyrirtækja. „Ísland hefur líka alla burði til að styrkja styrkja stöðu sína sem leiðandi þjóð í grænni orkunýtingu og loftslagsmálum. Þá kemur sér vel að hafa fulltrúa í Brussel til að koma á framfæri okkar sjónarmiðum og leggja aðildarfyrirtækjum Samorku lið. Sveinn er þrautreyndur í upplýsingamiðlun, stjórnsýslu og alþjóðlegu samstarfi. Það er því fengur að ráðingu hans,“ segir Finnur.

Einnig er haft eftir Sveini að hann hafi brennandi áhuga á orku- og veitumálum og sé ánægður með að vera kominn í hóp starfsmanna Samorku til að takast á við spennandi verkefni, bæði úti í Brussel og heima. „Þjóðaröryggi og þrautseigja samfélaga byggja ekki síst á öflugum orku- og veitugeira og þar stendur Ísland vel að vígi. Það er mikilvægt nú þegar óvissa ríkir í alþjóðamálum. Ég vil nýta mín reynslu og hæfni til vinna náið með aðildarfyrirtækjum Samorku því sóknarfærin eru fyrir hendi og orka og veitur er allra hagur,“ segir Sveinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×