Enski boltinn

Haaland sakaður um að meiða lukkudýrið

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland á að hafa slegið lukkudýr Manchester City, Moonbeam, í hausinn.
Erling Haaland á að hafa slegið lukkudýr Manchester City, Moonbeam, í hausinn. Samsett/Getty

Kona sem starfaði fyrir Manchester City og sá um að klæða sig upp sem lukkudýr félagsins, Moonbeam, sakar Erling Haaland um að hafa slegið sig í höfuðið þegar hún var í búningnum. Hún hafi þurft að fara á sjúkrahús og farið með málið til lögreglu.

Samkvæmt frétt Reuters hefur Manchester City hafnað ásökunum konunnar en þær komu fram í viðtali í The Sun.

Atvikið átti sér stað fyrir heimaleik City gegn Southampton í október. Konan sem klæddist búningi Moonbeam segist hafa verið í áfalli eftir að Haaland danglaði í höfuð hennar með „fjörugum“ (e. playful) hætti, þegar hún var að stilla sér upp í myndatöku.

„Ég var í nokkuð miklu uppnámi, grét og hausinn á mér skalf. Ég held ég hafi verið í áfalli,“ sagði konan við The Sun.

„Ég komst svo að því að hann hefði slegið mig í höfuðið og svo hallað sér ofan á mig,“ sagði konan. Hún hafi leitað til öryggisstjóra City sem hafi hlegið að málinu og sagt: „Þú getur þó sagt að Erling Haaland hafi slegið þig.“

Talsmaður City segir að búið sé að fullrannsaka málið og ekkert í rannsókninni styðji fullyrðingar konunnar

„Félagið rannsakaði málið að fullu og fann engar sannanir, þar á meðal myndbandsefni, sem studdu þá fullyrðingu að meiðsli hefðu orðið með þeim hætti sem haldið er fram. Okkur er einnig kunnugt um að tilkynnt hafi verið um málið til lögreglunnar í Manchester og að hún hafi ekki farið með málið lengra,“ segir talsmaður City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×