Innlent

Ber­skjöldun oft hluti af því að sækja rétt­læti þegar dóm­stólar bregðast

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Drífa Snædal er talskona Stígamóta.
Drífa Snædal er talskona Stígamóta. Vísir/Vilhelm

Talskona Stígamóta segir meðferð heimilisofbeldismála allt of handahófskennda innan dómskerfis og því sé tiltrú brotaþola á kerfinu ekki mikil. Brotaþolar sækja sér því mögulega réttlæti með öðrum hætti, til dæmis með því að berskjalda sig opinberlega með birtingu sönnunargagna og frásögn.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær greindi Margrét Mjöll Sverrisdóttir frá reynslu sinni af ofbeldi sem hún sætti af hálfu fyrrverandi sambýlismanns en í janúar í fyrra kærði lögreglan manninn fyrir ofbeldið en það náðist á öryggismyndavél. Niðurstaða dómsins olli henni djúpstæðum vonbrigðum en hann hljóðaði upp á tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára og gengur hann því laus. Hún vildi birta upptökur af ofbeldinu - það væri hluti af bataferlinu. Hún vildi varpa frá sér skömm og gefa fólki innsýn inn í veruleika heimilisofbeldis sem getur verið lífshættulegur. 

Drífa Snædal er talskona Stígamóta.

„Oft er það hluti af því að sækja réttlæti að segja frá. Þegar þú hefur ekki trú á því að kerfið veiti þér réttlæti eða þá að kerfið hefur meinað þér um réttlæti með því að fella niður málið eða að dæma ekki samkvæmt alvöru málsins. Þá getur þetta verið hluti af því að fá réttlæti, vara aðra við ofbeldisverkum og hugsanlegu ofbeldi. Við höfum sagt, í allri þessari umræðu um slaufun, opinberanir og afhjúpanir að þegar kerfið er ekki í stakk búið til að veita réttlæti þá verður þetta réttlæti og svo getum við rætt það hvort það sé endilega skynsamlegt eða hvað. Skynsamlegt að gera þá kröfu að þú þurfir að berskjalda þig sem þolandi til að ná einhverju réttlæti.

Drífa segir að drjúgur hluti vinnunnar hjá Stígamótum fari í að vinda ofan af sjálfsásökun og skömm brotaþola. Hún telur að mál hinnar frönsku Giséle Pelicot hafa valdið straumhvörfum. Eiginmaður hennar til fimmtíu ára braut margvíslega á henni.

„Þar sem þessi sjötuga kona, sem hefur verið nauðgað ítrekað, kemur fram undir nafni og mynd og segir skömmin er ekki mín. Það eru náttúrulega gríðarlega sterk skilaboð og ég held að það hafi valdeflt brotaþola og ég held það hafi líka búið til skilyrði í samfélaginu til þess að á brotaþola sé hlustað. Ég held að við séum að upplifa einhvers konar vendipunkt, eða ég vona það.“

Lögreglan farin að taka heimilisofbeldi fastari tökum

Drífa sér merki þess að lögreglan sé farin að taka heimilisofbeldismál fastari tökum en fjöldinn í skrám lögreglu hefur vaxið ár frá ári. Jákvæð merki í framþróun í vinnu lögreglu séu gríðarlega jákvæð.

Þegar vitni dregur framburð til baka, er ekki viljugt til þess að fara áfram með málið þá segir lögreglan þetta er svo alvarlegs eðlis að við förum áfram með þetta og erum með nægar sannanir hvort sem þú vilt það eða ekki. Þá er farið að líta á ofbeldi í nánum samböndum sem samfélagslegt vandamál og að það sé samfélagsleg ábyrgð lögreglunnar að fara lengra með svona ofbeldisverk, þetta er ekki lengur einkamál.“

Hún segir að þetta sé gríðarlega mikilvægur liður í baráttunni fyrir réttlæti. „Hið persónulega er pólitískt og að koma í veg fyrir ofbeldi inni á heimilum varðar almannahagsmuni“

Brotaþolar vantreysti dómskerfinu

Slæmu fréttirnar í stöðunni sé hins vegar vantraust brotaþola í garð dómskerfisins. Samkvæmt tölfræði hjá Stígamótum hafi kærum ekki fjölgað.

„Síðan hefur verið barátta mjög lengi fyrir því að vitnisburður um afleiðingar af ofbeldinu sé tekinn alvarlega. Það hefur verið svona handahófskennt og reyndar eru þessi mál mjög handahófskennd. Það fer eftir því á hvaða dómurum þú lendir, á hvaða dómstólum. Þú veist í raun aldrei niðurstöðuna, hún getur verið afskaplega handahófskennd varðandi sakfellingu og líka varðandi tímalengd á refsingu.“

„Það er hin eilífðar barátta að kerfið og fólk innan kerfisins skilji alvarleika málanna og geti sett sig í spor brotaþola. Við erum að vinna í því, með ýmsum ráðum, að auka skilning.“


Tengdar fréttir

Vildi birta upptökur af ofbeldinu: „Fólk þarf að sjá til að skilja“

Kona sem varð fyrir grófu ofbeldi í nánu sambandi er sár og reið út í dómskerfið þar sem gerandi hennar gengur laus vegna skilorðsbundins dóms. Í fréttinni munum við birta myndefni úr öryggismyndavél sem fangaði ofbeldið og vörum um leið við því. Konan vill stíga fram og sýna umheiminum hvernig heimilisofbeldi getur litið út, það sé lífshættulegt.

„Það vill enginn vera með þessar hugsanir eða langanir“

Sálfræðingur hjá Taktu skrefið segir skömm sameiginlega hjá öllum sem leiti til þeirra. Stóra markmið meðferðarinnar sé að koma í veg fyrir frekara ofbeldi. Rannsóknir sýni að meðferð geti komið í veg fyrir að menn brjóti aftur af sér. Stór hluti sem leitar til þeirra er þó einnig fólk sem ekki hefur brotið á öðrum en er með hugsanir eða langanir sem það hefur áhyggjur af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×