Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá fegurðardísina. Flugáhugamenn metast nefnilega stundum um fegurð flugvéla og þar skorar Boeing 757-þotan oft hátt.

„Það sem einkennir 757 er hvað hún er kraftmikil, hvað hún er falleg. Hún er svona háfætt, hún er voða falleg á að líta. Og svo bara mjög áreiðanleg. Þetta er vinnuhestur,“ segir Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri Icelandair.
„Hún er flott. Það eru línurnar, hvernig hún er byggð,“ segir Kristján Þór Svavarsson, flugvirki hjá Icelandair.

„Hún er reyndar rosa rennileg. Hún er falleg á flugi,“ segir Ásgerður Óskarsdóttir, yfirflugfreyja hjá Icelandair.

„Já, já, Hún er það. Minnir á áttuna. Áttan var löng og mjó,“ segir Kristinn Halldórsson flugvélaverkfræðingur, sem var tæknistjóri Flugleiða þegar 757-þotan varð burðarás flugflotans.

„Hún er vel hönnuð og samsvarar sér vel, bæði lendingarbúnaður, hreyflar og vængir,“ segir Hörður Már Harðarson, tæknistjóri viðhaldsstöðvar Icelandair.

Núna í vor verða 35 ár frá afhendingu fyrstu 757-þotunnar til Flugleiða en samtals hafa 42 þotur þessarar gerðar verið í rekstri félagsins. Þá er Icelandair eina flugfélagið í heiminum, sem hefur verið með allar þrjár undirgerðirnar í rekstri sínum; 757-200, fraktþotuna 757-200F og lengri gerðina 757-300.

Þegar spurt er um efnahagslega þýðingu flugvéla má eiginlega fullyrða að það sé engin sem toppi hana í þjóðarbúskap Íslendinga. Það má raunar spyrja hvort það séu mörg atvinnutæki sem hafi haft jafn mikil áhrif á hagvöxt hérlendis eins og Boeing 757.
Engin þota hefur flutt eins marga ferðamenn til Íslands né marga Íslendinga til útlanda né átt eins mikinn þátt í að byggja upp flugrekstur Icelandair.

„Enda held ég að þessi flugvél eigi sér bara mjög gott orðspor meðal Íslendinga. Ég heyri ekkert annað,“ segir Linda, yfirflugstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Í þættinum Flugþjóðin á Stöð 2 í kvöld var fjallað um 757-þotuna en engin önnur farþegaþota hefur þjónað Íslendingum jafn lengi og hún.
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvar og hvenær sem er.
Hér má sjá kynningarstiklu fyrir þáttaröðina: