Innlent

Hafn­firðingar greiða Rio Tin­to 26 milljónir vegna Reykja­nes­brautar

Kjartan Kjartansson skrifar
Stórvirkar vinnuvélar í framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar. Í baksýn sést álver Rio Tinto í Straumsvík sem Hafnarfjarðarbær þarf að borga bætur vegna framkvæmdanna.
Stórvirkar vinnuvélar í framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar. Í baksýn sést álver Rio Tinto í Straumsvík sem Hafnarfjarðarbær þarf að borga bætur vegna framkvæmdanna. Vegagerðin

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti samkomulag um að bærinn greiddi Rio Tinto rúmar 26 milljónir króna vegna lands sem var tekið undir breikkun Reykjanesbrautar. Vegagerðin neitaði að bæta fyrirtækinu landið þar sem Hafnarfjörður seldi það á sínum tíma án samþykkis.

Landið sem Hafnarfjarðarbær ætlar nú að greiða Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, fyrir er hluti af tæpum 52 hekturum lands sem bærinn seldi fyrirtækinu, sem þá hét Alcan á Íslandi, árið 2004.

Eftir að Vegagerðin tók yfir rúma 85.000 fermetra af því landi vegna framkvæmda og undirbúnings við tvöföldun Reykjanesbrautar árið 2023 neitaði hún að bæta Rio Tinto um 19.600 fermetra undir eldra vegstæði á þeim forsendum að stofnunin hefði ekki veitt samþykki sitt fyrir því að Hafnarfjarðarbær seldi landið fyrir tveimur áratugum.

Því hafa Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto nú gert með sér samkomulag um að bærinn greiði stóriðjufyrirtækinu bætur fyrir þann hluta landsins sem Vegagerðin neitaði að bæta. Miðað er við núvirt fermetraverð samkvæmt kaupsamningnum um landið frá 2004.

Hafnarfjarðarbær þarf þannig að greiða Rio Tinto rúmlega 26 milljónir króna fyrir landið. Bæjarráðs samþykkti samkomulagið á fundi sínum á föstudag og vísaði því til bæjarstjórnar til endanlegrar staðfestingar.

Vegagerðin sagði í febrúar að framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar miðaði vel og að útlit væri fyrir að þeim lyki á undan áætlun. Gert var ráð fyrir að þeim lyki um mitt næsta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×