Hinn 76 ára Depardieu, einn þekktasti leikari Frakklands, er sakaður um að hafa brotið á hinni 54 ára Amélie, starfsmanni leikmunadeildar, og hinni 34 ára Söruh, aðstoðarleikstjóra, við framleiðslu á myndinni Les Volets Verts (Grænu hlerarnir).
Amélie tilkynnti kynferðislega áreitni leikarans í febrúar 2024 og sagði í viðtali við franska miðilinn Mediapart að Depardieu hafi gripið sig harkalega, haldið henni fastri og nuddað á henni mittið, magann og farið upp að brjóstum. Dyraverðir Depardieu hafi þurft að stöðva leikarann sem hrópaði, á meðan hann gekk í burtu: „Við sjáumst aftur, elskan mín!“
Sarah tilkynnti kynferðisbrot Depardieu mánuði síðar, 21. mars 2024 og sakaði hann um að hafa snert á sér rasskinnarnar eitt kvöldið þegar hún gekk frá búningsherbergi sínu á tölustað. Í tvö önnur skipti hafi hann snert á henni rassinn og brjóstin á óviðeigandi hátt.
Depardieu hefur neitað ölllum ásökunum og sagði í opnu bréfi í Le Figaro í október 2023: „Aldrei hef ég misnotað konu.“
Fjórföld kransæðahjáveituaðgerð seinkaði réttarhöldunum
Réttarhöldin áttu upphaflega að fara fram í október 2024 en var seinkað vegna bágrar heilsu Depardieu. Jéremie Assous, lögfræðingur Depardieu, sagði leikarann hafa farið í fjórfalda kransæðahjáveituaðgerð og jafnframt þjást af sykursýki.
Læknir skipaður af dómara sagði Depardieu nægilega hraustan til að sitja tveggja daga réttarhöldin og er von á því að hann verði viðstaddur.
Þetta er í fyrsta sinn sem Depardieu, sem hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni af meira en tuttugu konum, fer fyrir dómara vegna ásakana um kynferðisbrot.
Hin málin voru felld vegna skorts á sönnunargögnum eða vegna of langt var liðið frá því brotin voru sögð hafa átt sér stað.