Neytendur

Þrjú hundruð á bið­lista og hækkuð áskriftargjöld

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Vel virðist ganga hjá Ágústu Johnson eiganda Hreyfingar en biðlisti eftir aðild að líkamsræktarstöðinni telur um þrjú hundruð manns. 
Vel virðist ganga hjá Ágústu Johnson eiganda Hreyfingar en biðlisti eftir aðild að líkamsræktarstöðinni telur um þrjú hundruð manns.  Vísir/Vilhelm

Mánaðaraðild án bindingar að líkamsræktarstöðinni Hreyfingu hefur undanfarið ár hækkað úr tæpum fimmtán þúsund krónum upp í tæpar tuttugu þúsund krónur. Þá hefur verið gert tímabundið hlé á nýskráningum í Hreyfingu vegna mikillar aðsóknar. Eigandi Hreyfingar segir aukna áherslu lagða á bætta þjónustu og aukin gæði á líkamsræktarstöðinni. 

Samkvæmt nýjustu verðskrá á vef Hreyfingar hefur tólf mánaða grunnaðild með bindingu að líkamsræktarstöðinni tæpar fimmtán þúsund krónur á mánuði, en á sama tíma í fyrra kostaði slík aðild tæpar tólf þúsund krónur.

Þá er skólaaðild, sem kostaði tæpar tólf þúsund krónur á verðskránni í janúar, ekki lengur í boði. 

Í skráningarformi á biðlista á vef Hreyfingar segir að tímabundið hlé hafi verið gert á nýskráningum til að tryggja meðlimum sem besta upplifun. Tekið verði á móti nýskráningum um leið og færi gefist.

Efst má sjá brot úr verðskrá Hreyfingar í mars í fyrra, fyrir miðju er verðskrá Hreyfingar í janúar og neðst er verðskrá Hreyfingar í dag. Í mars í fyrra kostaði skólaaðild 9.990 krónur en nú er slík aðild ekki lengur í boði. Við grunnaðild hefur nú bæst aðgangur að Boditrax líkamsástandsmælingum. Skjáskot

Heilsuaðild, sem veitir meðal annars aðgang að spa-inu í Hreyfingu og forskráningu í hóptíma, hefur að auki hækkað lítillega síðan í janúar, eða um þúsund krónur. Mánaðaraðild án bindingar kostar nú tæpar 36 þúsund krónur, en með bindingu til tólf mánaða tæpar 25 þúsund krónur.

Fleiri meðlimir og meiri aðsókn

Ágústa Johnson, eigandi og framkvæmdastjóri Hreyfingar, segir í samtali við fréttastofu að lokað hafi verið fyrir nýskráningar og opnað fyrir biðlista þann 16. janúar. Listinn telji um þrjú hundruð manns. 

Hún segir ýmsar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar á gjaldskrá Hreyfingar undanfarið. Til að mynda sé búið að breyta vissum áskriftarleiðum og taka einhverjar út. Þá hafi aukin áhersla verið lögð á aukin gæði stöðvarinnar, til dæmis með lengri opnunartíma um helgar. Ágústa segist hafa séð þá þróun undanfarin ár að samhliða meðlimafjölda hafi komur á stöðina aukist. 

„Við höfum verið með rosalega mikið af aðildum og við erum búin að gera ákveðnar breytingar. Þannig að einhverjir meðlimir upplifa einhverja hækkun, sem hafa verið í aðild sem er mögulega dottin út,“ segir Ágústa.

Í leið hafi verið bætt við þjónustu í einhverjum aðildarpökkum, til að mynda sé tími hjá þjálfara og aðgangur að líkamsástandsmælingatæki nú innifalinn í einhverjum áskriftarleiðum.

„Það hafa verið svolítið mörg verð í gangi og margar mismunandi aðildir, bæði bundnar og óbundnar, og þannig að þetta hefur snúist um að einfalda hlutina og endurskipuleggja,“ segir Ágústa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×