Efni erfðaskráa bandaríska stórleikarans Gene Hackman (95) og eiginkonu hans Betsy Arakawa (65), sem fundust bæði á látin á heimili sínu í Santa Fe í lok febrúar, hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum vestanhafs eftir að hún var gerð opinber á dögunum.
Þær voru báðar skrifaðar sama daginn í júní 2005 en þá gerði Hackman Arakawa að umsjónarmanni og viðtakanda allra eftirlátinna eigna sinna. Ef hún myndi falla frá yrði Michael G. Sutin, lögmaður, gerður að umsjónarmanni búsins.
Hann féll hins vegar frá árið 2019.
Þá kom einnig fram í erfðaskrá hennar að ef hún léti lífið innan við níutíu daga frá dauða Hackmans myndi auður þeirra fara í sjóð sem yrði gefinn til góðgerðarmála.
Sjá einnig: Betsy Arakawa lést viku á undan Gene Hackman
Komið er í ljós að Arakawa lést viku á undan Hackman og segja sérfræðingar í samtali við BBC að þess vegna sé líklegt að þrjú börn sem Hackman átti með Faye Maltese, fyrrverandi eiginkonu hans, muni erfa auð hans. Þau heita Christopher (65), Elizabeth (62) og Leslie (58).
Börn Hackman voru hvorki nefnd í erfðaskrá hans né í erfðaskrá Arakawa.
Arakawa lést vegna afar sjaldgæfrar sýkingar en Hackman lést viku síðar vegna hjartasjúkdóms. Hann var með Alzheimers á seinni stigum og er talið að hann hafi ekki vitað að Arakawa væri látin.