Handbolti

Gróttukonur gerðu aftur góða ferð á Sel­foss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Anna Ásmundsdóttir var markahæst í Gróttuliðinu í kvöld.
Katrín Anna Ásmundsdóttir var markahæst í Gróttuliðinu í kvöld. Vísir/Vilhelm

Botnlið Gróttu sótti stig á Selfoss í kvöld í hörkuleik liðanna í Olís-deild kvenna í handbolta.

Selfoss og Grótta gerðu þá 23-23 jafntefli þar sem Katla María Magnúsdóttir tryggði heimakonum jafntefli.

Grótta fékk tækifæri til að tryggja sér sigurinn en tókst ekki.

Selfosskonur voru búnar að tapa þremur leikjum í röð í Olís deild kvenna i handbolta og það stefndi lengi vel í sigur þeirra.

Selfoss var 11-10 yfir í hálfleik og Selfyssingar voru fimm mörkum yfir, 18-13, þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Gróttukonur gáfust ekki upp og unnu lokakafla leiksins 10-5.

Þær gerðu því aftur góða ferð á Selfoss því þær unnu fyrri leik liðanna þar í september. Þrjú af sex stigum Gróttuliðsins hafa því komið í hús í þessum tveimur leikjum liðsins á Selfossi.

Selfossliðið er í fjórða sæti deildarinnar en ÍR-konur voru búnar að ná þeim að stigum fyrir leik kvöldsins. Grótta er áfram á botninum með sex stig en nú er bara eitt stig í ÍBV sem eru næstar fyrir ofan þær.

Sara Dröfn Ríkharðsdóttir skoraði sex mörk fyrir Selfoss í kvöld og Perla Ruth Albertsdóttir var með fjögur mörk.

Katrín Anna Ásmundsdóttir var markahæst hjá Gróttu með sex mörk en þær Þóra María Sigurjónsdóttir, Karlotta Óskarsdóttir og Ída Margrét Stefánsdóttir skoruðu allar þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×