Erlent

Seðlabankastjórinn Carney verður for­sætis­ráð­herra Kanada

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Carney og Trudeau eftir að úrslit lágu fyrir í gær.
Carney og Trudeau eftir að úrslit lágu fyrir í gær. AP/Canadian Press/Sean Kilpatrick

Hagfræðingurinn og fyrrum seðlabankastjórinn Mark Carney verður næsti forsætisráðherra Kanada, eftir að hafa verið kjörinn formaður Frjálslynda flokksins.

„Bandaríkin eru ekki Kanada. Og Kanada mun aldrei verða hluti af Bandaríkjunum á neinn hátt,“ sagði Carney þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í gær. Var hann að vísa til hugmynda Donald Trump Bandaríkjaforseta um að Kanada verði 51. ríki Bandaríkjanna.

Carney tekur við af Justin Trudeau við fordæmalausar aðstæður, þar sem stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa lagt 25 prósent toll á vörur frá nágrannaríkinu. Carney sagði í gær að Kanadamenn hefðu ekki beðið um tollastríð en myndu hafa sigur.

Trudeau sagðist stoltur af arfleifð sinni en varaði við hættulegum tímum þar sem ekkert væri fast í hendi; hvorki lýðræðið, frelsið né Kanada sem slíkt.

Carney og Trudeau eru sagðir munu funda á næstu dögum til að ákveða hvenær síðarnefndi hættir og fyrrnefndi tekur við. Carney verður annar forsætisráðherran í sögu landsins án þingsætis en mun leiða Frjálslynda flokkinn í næstu þingkosningum.

Carney var bankastjóri Seðlabanka Kanada frá 2008 til 2013 og bankastjóri Bank of England frá 2013 til 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×