Innlent

Ný for­ysta Sjálf­stæðis­flokksins kjörin

Árni Sæberg og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Nýr ritari, formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Nýr ritari, formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Anton Brink

Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í Laugardalshöll eftir harða keppni við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Kosningin var jöfn og spennandi, en Guðrún hafði að lokum sigur með 19 atkvæða mun.

Í kjölfar formannskjörs var kosið um varaformann og ritara. Jens Garðar Helgason var kjörinn varaformaður, en hann bauð sig fram ásamt Diljá Mist Einarsdóttur. Jens Garðar hlaut 928 atkvæði eða 53,2 prósent gildra atkvæða. Diljá Mist hlaut 758 atkvæði sem samsvarar 43,4 prósentum.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður flokksins, var endurkjörinn ritari með 74,8% atkvæða en hann var einn í framboði.

Jens Garðar og Guðrún munu leiða Sjálfstæðisflokkinn. Jens hafði betur í varaformannskjöri gegn Diljá Mist Einarsdóttur. Til vinstri sést Vilhjálmur Árnason, sem mun að öllum líkindum bætast við forystuna eftir augnablik, þar sem hann er einn í yfirlýstu framboði til ritara.Vísir/Anton Brink

Á fundinum voru einnig rædd málefni sem snerta framtíð flokksins og stefnumál. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins til sextán ára, kvaddi hið pólitíska svið. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fráfarandi varaformaður, lagði áherslu á mikilvægi frelsis og samstöðu með vinaþjóðum Íslendinga.

Landsfundurinn markaði mikilvæg tímamót í sögu Sjálfstæðisflokksins, þar sem ný forysta tekur við og stefna flokksins mótast fyrir komandi ár. Í fyrsta sinn í sögu flokksins er kona formaður.

Vísir var í beinu streymi úr Laugardalshöll og fylgdist með gangi mála í vaktinni hér að neðan. Ef vaktin birtist ekki er ráð að endurhlaða síðuna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira
×