Enski boltinn

Garnacho þarf að splæsa mál­tíð á allt liðið

Sindri Sverrisson skrifar
Alejandro Garnacho verður væntanlega með gegn Fulham á sunnudaginn.
Alejandro Garnacho verður væntanlega með gegn Fulham á sunnudaginn. Getty/Alex Livesey

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að hinn tvítugi Alejandro Garnacho þurfi að greiða fyrir kvöldmáltíð handa öllum liðsfélögum sínum vegna þess hvernig hann lét á miðvikudagskvöld.

Garnacho var í byrjunarliði United gegn Ipswich en strunsaði beint til búningsklefa eftir að honum var skipt af velli á 45. mínútu. Amorim skipti honum af velli eftir að Daninn Patrick Dorgu hafði fengið rautt spjald og setti varnarmanninn Noussair Mazraoui inn á.

Garnacho virtist pirraður yfir því að hafa verið skipt út af og Amorim lét í ljós óánægju sína með viðbrögð kantmannsins sem mætti svo til hans daginn eftir.

„Hann kom á skrifstofuna til mín,“ sagði Amorim á blaðamannafundi í dag.

„Ég rannskaði málið aðeins. Hann fór í búningsklefann, horfði á leikinn og fór síðan heim. Þetta er ekkert mál en eins og ég sagði honum þá skiptir allt máli hjá Manchester United. Hjá þessu félagi þá er mikilvægt hvernig menn koma fyrir,“ sagði Amorim og bætti við:

„Hann mun borga fyrir kvöldmáltíð handa öllu liðinu. Þar með er það afgreitt.“

Portúgalinn kvaðst reikna með því að Garnacho yrði klár í slaginn á sunnudaginn þegar United mætir Fulham í ensku bikarkeppninni. Leikurinn hefst klukkan 16:30 og er sýndur á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×