Erlent

Mynduðu stjórn án stærsta flokksins

Atli Ísleifsson skrifar
Andreas Babler, leiðtogi Jafnaðarmanna, Christian Stocker frá Þjóðarflokknum og Beate Meinl-Reisinger, leiðtogi Neos, á fréttamannafundinum í gær.
Andreas Babler, leiðtogi Jafnaðarmanna, Christian Stocker frá Þjóðarflokknum og Beate Meinl-Reisinger, leiðtogi Neos, á fréttamannafundinum í gær. AP

Leiðtogar þriggja miðjuflokka í Austurríki hafa náð saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar, fimm mánuðum eftir þingkosningar fóru fram í landinu. Frelsisflokkurinn, sem er lengst til hægri í austurrískum stjórnmálum og hlaut flest atkvæði í kosningunum, stendur utan nýrrar stjórnar.

Leiðtogar Þjóðarflokksins (ÖVP), Jafnaðarmannaflokksins (SPÖ) og Neos-flokksins greindu frá stjórnarmynduninni á fréttamannafundi í gær.

Þar var greint fá áætlunum nýrrar stjórnar um að berja niður verðbólgu, að koma á sérstöku leiguþaki og strangari reglum um innflytjendur, sérstaklega hvað varðar fjölskyldusameiningar. Þá stendur til að koma á banni við að stúlkur yngri en fjórtán ára klæðist hijab.

Christian Stocker, leiðtogi Þjóðarflokksins, sagði stjórnarmyndunarviðræðurnar hafa verið erfiðar og að leiðtogar flokkanna hafi skynjað óþreyju austurríski þjóðarinnar eftir nýrri stjórn. Aldrei hafa stjórnarmyndunarviðræður tekið svo langan tíma í Austurríki frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Stocker sagði leiðtogana þó ánægða og stolta af samkomulaginu og að „málamiðlun væri austurrísk dyggð“. Um er að ræða fyrsta þriggja flokka stjórn landsins frá fimmta áratug síðustu aldar, en flokkarnir þrír eiga þó enn eftir að leggja blessun sína yfir samkomulagið.

Frelsisflokkurinn hlaut 28,8 prósenta fylgi í þingkosningunum og bætti við sig fylgi. Leiðtogar Frelsisflokksins reyndu að fá aðra flokka til samstarfs en þær stjórnarmyndunarviðræður sigldu í strand fyrr í mánuðinum.


Tengdar fréttir

Frelsis­flokkurinn stærstur í Austur­ríki

Kosið var til þings í Austurríki í dag og benda fyrstu útgönguspár til þess að Frelsisflokkurinn verði stærstur flokka með 29,1 prósent atkvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×